Faghópur arkitekta
Störf arkitekta spanna vítt svið, allt frá skipulagsgerð og hönnun mannvirkja til kennslu og rannsókna. Arkitektar í Visku geta skráð sig í faghóp arkitekta.
Faghópur arkitekta innan Visku er vettvangur þeirra sem vilja starfa að kjaramálum arkitekta. Megintilgangur hópsins er að standa vörð um kjör og réttindi arkitekta og endurmenntun þeirra.
Talsmaður arkitekta í fulltrúaráði Visku er Gerður Jónsdóttir.
Hver erum við?
Arkitektúr er faggrein sem hægt er að stunda ýmist við háskóla eða listaháskóla sem BA-, MA- og doktorsnám. Arkitekt er lögverndað starfsheiti sem háð er leyfi frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti og krefst 300 ECTS eininga náms í arkitektúr við háskóla sem ráðuneytið viðurkennir.
Til að öðlast löggildingu sem arkitekt þarf viðkomandi, auk þess að hafa lokið háskólaprófi í arkitektúr, að standast próf á vegum prófnefndar mannvirkjahönnuða. Einstaklingur sem hlotið hefur löggildingu sem arkitekt og getur sýnt fram á a.m.k. 3 ára starfsreynslu öðlast leyfi til að leggja fram aðaluppdrætti vegna byggingarleyfa.
Störf arkitekta spanna vítt svið, allt frá skipulagsgerð og hönnun mannvirkja til kennslu og rannsókna. Arkitektar eru starfandi hjá ríki, sveitarfélögum og á almennum markaði, ýmist sem launafólk eða sjálfstætt starfandi.