Hvað gera stéttarfélög?
Stéttarfélög eru öflugir hagsmunaverðir fyrir félagsfólk sitt. Stéttarfélög veita félagsfólki ráðgjöf um kjara- og réttindamál, lögfræðiaðstoð vegna erfiðra mála á vinnustað, ráðgjöf og styrki í veikindum og svo stuðning að snúa aftur á vinnumarkaðinn, námsstyrki og orlofshús.
Afl samstöðu
Fyrsta stéttarfélagið á Íslandi var stofnað árið 1887 og alla tíð síðan hefur verkalýðshreyfingin gegnt lykilhlutverki í því að tryggja kjör og réttindi fólks á Íslandi. Mörg af þeim grundvallarréttindum sem við njótum í dag á Íslandi voru fyrst sett fram við kjarasamningsborðið.
Stéttarfélög tryggja lágmarksréttindi á vinnumarkaði með því að gera miðlæga kjarasamninga við Samtök atvinnulífsins fyrir fólk sem starfar á almennum markaði og við ríkið, sveitarfélög og Reykjavíkurborg fyrir fólk sem starfar á opinberum markaði.
Í krafti samstöðunnar hafa stéttarfélög lagt grundvöllinn að réttlátu samfélagi og saman getum við tryggt framtíðina.
Viska er fyrir sérfræðinga af öllu tagi
Viska er þverfaglegt félag, sem hefur að leiðarljósi fjölbreytileika, sveigjanleika og lausnir sem virka fyrir félagsfólk sitt.
Viska er stærsta aðildarfélag BHM fyrir fólk sem hefur lokið eða er í háskólanámi, eða sambærilegu námi, og fyrir fólk sem gegnir sérfræðistörfum sem krefjast þekkingar sem alla jafnan er á háskólastigi.
Félagsfólk Visku starfar um land allt, í flestum stofnunum og fyrirtækjum landsins. Þekking þeirra og færni er fjölbreytt, félagsfólk Visku hefur lokið námi úr rúmlega 200 faggreinum, frá félagsvísindum til listgreina, hugvísindum til heilbrigðisvísinda, verkfræði og náttúruvísindum til menntavísinda
Í Visku sameinast fólk með fjölbreytta og ólíka menntun að baki. Viska er eitt stærsta stéttarfélag sérfræðinga á Íslandi og vex hratt enda er þetta sá félagsskapur sem endurspeglar framtíðina, samfélag þar sem fjölbreytileiki, þverfagleg vinnubrögð og nýsköpun á vinnumarkaði skipta máli.
Hvað gerir Viska fyrir þig?
Viska er í forsvari fyrir félagsfólk varðandi kjör og réttindi og gerir kjarasamninga við aðila vinnumarkaðarins.
Viska veitir þér þjónustu og ráðgjöf varðandi kjör og réttindi, hvort sem er aðstoð við að lesa launaseðilinn, ráðgjöf við gerð ráðningasamninga, aðstoð við undirbúning starfsþróunar- og launaviðtala, stuðning vegna atvinnumissis, slysa eða veikinda og svo aðstoð við að snúa aftur á vinnumarkaðinn.
Lestu meira um hvað Viska gerir fyrir þig með því að smella hér.
Hjá Visku getur þú sótt um ýmsa styrki vegna starfs- og endurmenntunar, til meðferðar sem stuðlar að bættri andlegri eða líkamlegri heilsu og vegna orlofs og ferðalaga.
Lestu meira um sjóði Visku með því að smella hér.