Kjaradeild bókasafns- og upplýsingafræðinga
Launafólk sem hefur menntað sig í bókasafns- og upplýsingafræðum eða starfar við bókasafns- og upplýsingafræði getur skráð sig í kjaradeild bókasafns- og upplýsingafræðinga.
Launafólk sem hefur menntað sig í bókasafns- og upplýsingafræðum eða starfar á því sviði getur skráð sig í Kjaradeild bókasafns- og upplýsingafræðinga.
Kjaradeild bókasafns- og upplýsingafræðinga var stofnuð árið 2023 en á rætur sínar að rekja allt aftur til ársins 1973 þegar Félag bókasafnsfræðinga var stofnað sem bæði fagfélag og stéttarfélag. Innan þess starfaði sérstök kjaradeild. Þann 8. apríl 1999 sameinaðist félagið Bókavarðafélagi Íslands og var þá tekin sú ákvörðun að gera kjaradeildina að sérstöku og sjálfstæðu stéttarfélagi: SBU – Stéttarfélagi bókasafns- og upplýsingafræðinga, sem frá upphafi var aðili að BHM – Bandalagi háskólamanna. Í SBU sameinuðust háskólamenntaðir bókasafns- og upplýsingafræðingar í eitt stéttarfélag sem nú var opið félagsfólki sem starfaði á almennum markaði, ólíkt því sem kjaradeild Félags bókasafnsfræðinga hafði verið. Ásdís Hafstað var fyrsti formaður félagsins.
Þann 2. nóvember 2023 sameinaðist SBU í Visku ásamt tveimur systurfélögum innan BHM, FÍF – Félagi íslenskra félagsvísindamanna og Fræðagarði. Kjaradeild bókasafns- og upplýsingafræðinga var stofnuð á fyrsta stjórnarfundi Visku og var fyrsta stjórn deildarinnar skipuð stjórnarfólki SBU. Formaður kjaradeildar SBU er Kristjana Mjöll Jónsdóttir Hjörvar og með henni í stjórn sitja Ingibjörg Ösp Óttarsdóttir, Óskar Þór Þráinsson, Ragna Björk Kristjánsdóttir og Þóra Jónsdóttir.
Um 260 félagar í Visku eru í Kjaradeild bókasafns- og upplýsingafræðinga.