Jafnrétti
Öll erum við jöfn fyrir lögum og mismunun á grundvelli kyns, þjóðernis, fötlunar, kynhneigðar eða annarra þátta er bönnuð. Öll þurfum við að standa vörð um mannréttindi og jafnrétti á öllum sviðum samfélagsins.
Jafnrétti á vinnumarkaði
Stjórnarskrá Íslands kveður á um þá grundvallarreglu að allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.
Á vinnumarkaði eru þessi grundvallarréttindi nánar útfærð í
lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði.
Mismunun launafólks að því er varðar aðgengi að störfum, þ.m.t. við ráðningar og framgang í starfi, ákvörðun launa og annarra starfskjara og uppsagnir, er óheimil lögum samkvæmt.
Óheimilt er að byggja óhagstæða meðferð launafólks á einhverjum eftirfarandi þátta: Kynferði, kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkenni eða kyntjáningu.
Hvers kyns mismunun á vinnumarkaði, hvort heldur bein eða óbein, vegna framangreindra þátta er óheimil. Fjölþætt mismunun, þ.e. þegar einstaklingi er mismunað á grundvelli fleiri en einnar mismununarástæðu sem nýtur verndar samkvæmt lögum er einnig óheimil.
Kynbundin áreitni eða kynferðisleg áreitni telst einnig til mismununar sem og hvers konar óhagstæð meðferð einstaklings sem rekja má til þess að hann hafi vísað á bug kynbundinni eða kynferðislegri áreitni eða hafi látið hana yfir sig ganga.
Atvinnurekendum er skylt að grípa til viðeigandi ráðstafana til þess að gera einstaklingum með fötlun eða skerta starfsgetu kleift að eiga aðgengi og taka þátt í starfi, njóta framgangs í starfi og fá þjálfun, svo lengi sem þær ráðstafanir eru ekki of íþyngjandi.
Bein mismunun lýsir sér í því þegar einstaklingur fær óhagstæðari meðferð vegna einhverra þeirra þátta sem njóta verndar samkvæmt lögum en annar einstaklingur fær, hefur fengið eða myndi fá við sambærilegar aðstæður.
Einstaklingur á að geta borið tiltekna meðferð sem hann verður fyrir saman við meðferð á öðrum einstaklingi í sambærilegum aðstæðum, svo sem fyrirrennara í starfi eða borið þá meðferð sem hann verður fyrir saman við meðferð á ímynduðum einstaklingi sé raunverulegur einstaklingur í sambærilegum aðstæðum ekki til staðar.
Sem dæmi getur fatlaður einstaklingur borið sig saman við ófatlaðan einstakling sem starfar í sambærilegum aðstæðum eða ímyndaðan ófatlaðan einstakling.
Óbein mismunun kallast það þegar að því er virðist hlutlaust skilyrði, viðmið eða ráðstöfun kemur verr við einstaklinga vegna þátta sem njóta verndar borið saman við aðra einstaklinga nema slíkt sé unnt að réttlæta á málefnalegan hátt með lögmætu markmiði og aðferðirnar til að ná þessu markmiði séu viðeigandi og nauðsynlegar.
Í skýringum í frumvarpi laga um jafna meðferð á vinnumarkaði er tekið sem dæmi atvinnurekandi sem gerir kröfur um fullkomna íslenskukunnáttu starfsmanna sinna. Hugsanlega væri slík krafa réttlætanleg með tilliti til eðlis starfsins, t.d. ef um stöðu íslenskukennara eða prófessors í íslenskum bókmenntum væri að ræða. Þyrfti þá jafnframt að meta hvort krafa um fullkomna íslenskukunnáttu væri viðeigandi og nauðsynleg. Með málefnalegum hætti er átt við að litið sé til málefnalegra sjónarmiða sem bæði geta verið hlutlæg og huglæg.
Hafðu samband
Félagsfólk getur ávallt leitað liðsinnis ráðgjafa Visku ef upp koma spurningar um meint brot á jafnréttislögum eða lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði. Lagt er mat á umkvörtunarefnið og leiðbeiningar veittar um næstu skref.
Jafnræði í lögum Visku
Viska leggur áherslu á jafnræði í félagsstarfi sínu.
Í lögum Visku er kveðið á um fléttukosningar til stjórnar félagsins til að stuðla að jafnri kynjaskiptingu. Enn fremur er kveðið á í lögum félagsins að við val á félagsfólki til trúnaðarstarfa fyrir félagið skal gætt jafnræðis, svo sem milli kynja og atvinnumarkaða.
Félagsfólk getur boðið sig fram til stjórnar, tekið þátt í starfi kjaradeilda og faghópa og sótt námskeið á vegum félagsins.