Trúnaðarmenn
Trúnaðarmaður er félagi í stéttarfélagi sem hefur verið tilnefndur af starfsmönnum eða félaginu sjálfu sem fulltrúi þess á vinnustað.
Trúnaðarmenn Visku
Trúnaðarmenn Visku eru virkir á fjölda vinnustaða út um land allt.
Hafðu samband við skrifstofu félagsins til að fá upplýsingar hvort trúnaðarmaður sé starfandi á þínum vinnustað.
Vantar trúnaðarmann á þínum vinnustað? Hægt er að fá frekar upplýsingar og aðstoð við kosningu trúnaðarmanna hjá Visku með því að senda fyrirspurn á skrifstofu félagsins.
Trúnaðarmaður er tengiliður milli félagsfólks á vinnustað og launagreiðanda annars vegar og milli félagsfólks og stéttarfélags hins vegar. Trúnaðarmaður stendur ekki einn og eru starfsfólk og stjórn stéttarfélags honum til aðstoðar við að leysa úr erindum sem heyra undir starfssvið stéttarfélagsins. Meðal helstu hlutverka trúnaðarmanna eru að:
- Hafa eftirlit með því að launagreiðandi fari eftir ákvæðum kjarasamnings, laga og reglugerða um starfskjör og réttindi starfsmanna og grípa til nauðsynlegra aðgerða ef þörf er á
- Meta hvaða ákvæðum kjarasamninga og reglna er æskilegt að breyta til að bæta kjör eða draga úr vanda við framkvæmd og gera stéttarfélaginu grein fyrir því, m.a. þegar staðið er að undirbúningi fyrir kröfugerð vegna kjarasamninga
- Taka við umkvörtunum starfsfólks og vera talsmaður þeirra gagnvart atvinnurekanda
- Vera fulltrúi stéttarfélagsins á vinnustað, sjá um að koma boðum frá félagsfólki til félagsins og frá félaginu til félagsfólks. Kynna félagsfólki stefnu stéttarfélagsins og verkefni hverju sinni
- Taka á móti nýju starfsfólki, kynna þeim starfskjör og réttindi og kynna þeim stéttarfélagið og starfsemi þess
Á hverjum vinnustað þar sem a.m.k. 5 félagar í sama stéttarfélagi starfa er þeim heimilt að kjósa einn trúnaðarmann úr sínum hópi. Á vinnustað þar sem 50 félagsmenn eða fleiri starfa má kjósa tvo trúnaðarmenn.
Kosning eða tilnefning trúnaðarmanns skal fara fram á tveggja ára fresti. Yfirleitt sér núverandi trúnaðarmaður um kosningu eftirmanns.
Trúnaðarmaður fær ekki réttarstöðu og lögbundna vernd trúnaðarmanns nema kosning hans hafi verið tilkynnt stéttarfélagi og vinnuveitanda skriflega og sannanlega.
Það er því mjög mikilvægt að kjörnir trúnaðarmenn gæti þess að tilkynningaskyldu sé fylgt eftir, með meðfylgjandi eyðublöðum.
- Eyðublað fyrir trúnaðarmenn á opinberum vinnumarkaði (ríki og sveitarfélög)
- Eyðublað fyrir trúnaðarmenn á almennum vinnumarkaði
Mikilvægt er að hafa í huga að tveimur árum eftir kosningu rennur kjörtímabil trúnaðarmanns út. Ef trúnaðarmaður er ekki endurkjörinn missir hann þá vernd og réttindi sem hann annars nýtur samkvæmt lögum.
Hægt er að fá frekar upplýsingar og aðstoð við kosningu trúnaðarmanna hjá Visku með því að senda fyrirspurn á skrifstofu félagsins.
Vernd trúnaðarmanna gegn uppsögn af hálfu launagreiðanda er hornsteinn þeirra reglna sem gilda um trúnaðarmenn. Verndin er til að tryggja að það trúnaðarmaður geti sinnt trúnaðarstörfum án þess að eiga á hættu að missa vinnuna vegna þeirra.
Stjórnendur mega því ekki segja trúnaðarmanni upp fyrir að vekja athygli á óþægilegum málum fyrir hönd samstarfsfólks eða benda á kjarasamningsbrot fyrir hönd stéttarfélags. Brjóti trúnaðarmaður hins vegar af sér í daglegum störfum eða vanræki hann starf sitt, er hann í sömu stöðu gagnvart atvinnurekanda og aðrir á vinnustaðnum.
Trúnaðarmaður fær ekki réttarstöðu og lögbundna vernd trúnaðarmanns nema kosning hans hafi verið tilkynnt stéttarfélagi og vinnuveitanda skriflega og sannanlega. Það er því mjög mikilvægt að kjörnir trúnaðarmenn gæti þess að tilkynna skrifstofu Visku skriflega um kosningu sína og endurnýja umboð sitt á tveggja ára fresti.
Félagsdómur hefur fjallað um vernd trúnaðarmanns í starfi í dómum sínum og þannig hafa mótast ákveðnar reglur um vernd trúnaðarmanna fyrir uppsögn.
Trúnaðarmenn hjá ríki og sveitarfélögum:
- Trúnaðarmaður skal í engu gjalda þess í starfi eða á annan hátt að hann hafi valist til trúnaðarstarfa
- Ekki má flytja trúnaðarmann í lægri launflokk, meðan hann gegnir starfi trúnaðarmanns
- Trúnaðarmaður situr að öðru jöfnu fyrir um að halda vinnunni ef hann er ráðinn með ótímabundinni ráðningu.
- Trúnaðarmaður hefur rétt til þess að rækja skyldur sínar á vinnutíma
- Trúnaðarmaður á rétt á því að hafa aðstöðu á vinnustað til að rækja skyldur og hlutverk sitt.
- Trúnaðarmaður á rétt á upplýsingum ef staða losnar á vinnustað hans
- Trúnaðarmönnum hjá ríkisstofnunum, Reykjavíkurborg og ýmsum sjálfseignastofnunum er einnig heimilt að sækja þing, fundi, ráðstefnur og námskeið á vegum stéttarfélagsins í allt að eina viku á ári án skerðingar á reglulegum launum
Samhljóða ákvæði er einnig í kjarasamningi við sveitarfélög frá 2011.
Trúnaðarmenn sem kjörnir eru í samninganefnd fá leyfi til að sinna því verkefni án skerðingar á reglulegum launum. Trúnaðarmanni ber þó að tilkynna yfirmanni um slíkar fjarvistir með eðlilegum fyrirvara.
Trúnaðarmenn á almennum vinnumarkaði:
- Óheimilt er að segja trúnaðarmanni upp störfum vegna trúnaðarstarfa sem hann gegnir eða láta trúnaðarmann gjalda á nokkurn hátt fyrir að stéttarfélag hafi falið honum að gegna starfi trúnaðarmanns fyrir sína hönd.
- Þurfi launagreiðandi að fækka starfsmönnum skal trúnaðarmaður að öðru jöfnu sitja fyrir um að halda vinnunni.
Trúnaðarmönnum er heimilt að sinna á vinnutíma trúnaðarstörfum sem honum eru falin af stéttarfélagi eða samstarfsmanni án þess að laun þeirra skerðist, að því gefnu að trúnaðarmaður hafi samráð við launagreiðanda um störf þessi.
Bandalag háskólamanna býður trúnaðarmönnum upp á rafræn námskeið á Mínum síðum, undir flipanum Viðburðir og námskeið.
Þar er að finna stutt myndbönd (10 til 30 mín) eftir flokkum, þar sem farið er yfir hvert hlutverk trúnaðarmanns er og þau atriði sem trúnaðarmenn þurfa að kunna skil á og snúa að hlutverki þeirra. Fyrir neðan myndböndin er einnig margvíslegt ítarefni sem hægt er að prenta út og gagnlegir hlekkir.
Trúnaðarmönnum er einnig bent á að fylgjast reglulega með fræðsludagskrá BHM, bæði fyrir sjálfa sig og til að miðla til annarra á vinnustaðnum eftir þörfum.
Ítarefni
Nánari skilgreiningar og réttindaákvæði um trúnaðarmenn má ýmist finna í kjarasamningum, samkomulagi heildarsamtaka um trúnaðarmenn eða í lögum um opinbera starfsmenn.
Opinberir starfsmenn (ríki og sveitarfélög)
Eftirtaldir teljast til trúnaðarmanna samkvæmt samkomulagi um trúnaðarmenn:
- Kjörnir trúnaðarmenn á vinnustöðum
- Stjórnarmenn stéttarfélaga
- Samninganefndarmenn stéttarfélaga
- Fulltrúar í aðlögunar-, úrskurðar-, og samstarfsnefndum
Ofantaldir aðilar njóta þeirra réttinda og verndar sem lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986 gera ráð fyrir. Þá er að finna í ofangreindu samkomulagi rétt trúnaðarmanna til fjarveru vegna trúnaðarstarfa.
Starfsfólk á almennum vinnumarkaði
Í kjarasamningi aðildarfélaga BHM og Samtaka atvinnulífsins frá árinu 2011 var bætt við sérstökum kafla um trúnaðarmenn. Að öðru leyti er ákvæði um trúnaðarmenn á almennum vinnumarkaði að finna í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938.
Ákvæði um trúnaðarmenn í samningum og lögum:
- Samtök atvinnulífsins
- Lög nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur
- Lög nr. 94/1986 um kjarasamning opinberra starfsmanna
- Samkomulag um trúnaðarmenn hjá ríki, Reykjavíkurborg og ýmissa sjálfseignastofnana, frá 1989
- Samkomulag um trúnaðarmenn við Samband íslenskra sveitarfélaga, frá 2011
Finna má nánari upplýsingar í texta um hlutverk trúnaðarmanna á vef BHM.