Sjálfstætt starfandi
Sífellt fleiri kjósa að starfa sjálfstætt og geta þannig stjórnað bæði vinnutíma sínum og umhverfi. Í flestum starfsstéttum getur fólk verið sjálfstætt starfandi. Víða færist í vöxt að háskólamenntað fólk velji þennan kost eða sé bæði í föstu starfi og vinni sem verktakar.
Lykilatriði
Við hjá Visku leggjum okkur fram um að taka vel á móti sjálfstætt starfandi einstaklingum. Hér fyrir neðan höfum við tekið saman lykilatriði fyrir sjálfstætt starfandi einstaklinga.
Þú getur svo alltaf sent okkur fyrirspurn eða óskað eftir símtali.
BHM hefur sett upp reiknivél fyrir verð á útseldri vinnu til að auðvelda félagsfólki að reikna út sín mánaðarlaun.
Sjálfstæðir atvinnurekendur eru þau sem stunda eigin rekstur, ýmist á eigin kennitölu eða í félagi, oftast einkahlutafélagi.
Þau sem starfa sjálfstætt geta haft aðra í vinnu og bera þá skyldur gagnvart þeim líkt og aðrir vinnuveitendur.
Viss aukavinna og ábyrgð fylgir því að vera sjálfstætt starfandi. Fólk verður sjálft að standa skil á ýmsum sköttum og gjöldum, svo sem lífeyrissjóðsgreiðslum.
Sjálfstætt starfandi og smærri fyrirtæki á almenna vinnumarkaðinum sem ekki skila iðgjöldum beint úr launakerfi, geta skilað þeim gegnum rafræna skilagreinaformið. Það er einfalt í notkun og birtist útreikningur sjálfkrafa. Notendur haka við þá sjóði sem ekki á að greiða í. Athugið að færa þarf inn upphæð í báða launadálka þar sem iðgjöld í Vísindasjóð eru reiknuð af dagvinnulaunum. Einu gildir þótt sama launaupphæð verði á báðum stöðum. Einnig er nauðsynlegt að fara vel yfir upplýsingarnar áður en ýtt er á „senda“-hnappinn. Kvittun er send á uppgefið netfang þegar iðgjöldin hafa verið send.
Rafræna skilagreinaformið er aðeins fyrir launþega á almennum vinnumarkaði og því er ekki hægt að fylla það út fyrir t.d. tónlistarkennara sem eru í Félagi íslenskra hljómlistarmanna. Nota verður annan sendingarmáta fyrir þá launþega.
Fylla þarf út skilagreinaformið mánaðarlega, þ.e. fyrir hvern launamánuð.
Ekki er tekið við „núll skilagreinum“. Ef engar tekjur eru tiltekinn mánuð er skilum sleppt fyrir þann mánuð.
Tvær greiðsluleiðir eru mögulegar:
- Greiða kröfur sem myndast í netbanka launagreiðanda.
- Greiða með millifærslu inn á bankareikning BHM: 0515-26-550000 kt. 630387-2569.
BHM mælir með að kröfur séu greiddar í stað þess að millifæra.
Ef krafa hefur ekki stofnast í netbanka getur eftirfarandi átt við:
- skilagrein hefur ekki borist Bókunar- og innheimtumiðstöð BHM.
- launagreiðandi hefur ávallt millifært og þarf að óska eftir að fá kröfu í netbanka.
Netfang: skilagreinar@bhm.is
Póstfang fyrir skilagreinar sem berast í bréfpósti: Bandalag háskólamanna, Borgartúni 27, 105 Reykjavík (Ath. ekki er mælt með þessum sendingarmáta)
Sjúkrasjóður BHM 1% (valkvætt gjald)
Orlofssjóður BHM 0,25% (valkvætt gjald)
Starfsmenntunarsjóður BHM 0,22% (valkvætt gjald)
Starfsþróunarsetur háskólamanna 0,70% (valkvætt gjald)
Vísindasjóður 1,5% af dagvinnulaunum (valkvætt gjald)
Framlag í VIRK, starfsendurhæfingarsjóð er 0,1% af heildarlaunum og er innheimt af lífeyrissjóði.
Reglur sjóða BHM ná jafnt til allra félagsmanna aðildarfélaga BHM óháð ráðningarformi, fyrir utan ákvæði er snerta sjálfstætt starfandi vegna sjúkradagpeninga hjá Sjúkrasjóði BHM.
Samkvæmt úthlutunarreglum Sjúkrasjóðs BHM hefur sjálfstætt starfandi sjóðfélagi rétt til greiðslu sjúkradagpeninga sem um launþega væri að ræða. Biðtími til bótaréttar vegna sjálfstætt starfandi félagsmanna er 2 mánuðir vegna eigin veikinda.
Ef iðgjald í Sjúkrasjóð BHM endurspeglar ekki raunveruleg heildarlaun getur það haft áhrif á upphæð sjúkradagpeninga. Almenna reglan er sú að reikna á 1% iðgjald af heildarlaunum eins og þau eru hverju sinni. Staðgreiðsluskrá er skoðuð hjá sjálfstætt starfandi/verktökum.
Félagsfólk aðildarfélaga BHM sendir inn iðgjöld í gegnum rafrænt form skilagreina eða að kaupa bókhaldsþjónustu sem sendir skilagreinar úr launakerfi.
Nánari upplýsingar um sjóði BHM má finna hér eða með því að senda fyrirspurn á þjónustuver sjóða.
Það er mikilvægt að átta sig á að talsverður munur er á stöðu sjálfstætt starfandi einstaklings og launþega. Lög og kjarasamningar tryggja launþegum ýmis réttindi sem sjálfstætt starfandi njóta ekki.
Þau sem starfa sjálfstætt eiga ekki rétt á:
- Greiddu orlofi
- Orlofs- og desemberuppbót
- Launum fyrir viðurkennda frídaga
- Eru ekki slysatryggð
- Eiga ekki rétt á launum í veikindum
...svo eitthvað sé nefnt.
Þau sem starfa sjálfstætt þurfa því að sjá um að greiða opinber gjöld af launum sínum. Til dæmis staðgreiðslu opinberra gjalda, tryggingagjald og iðgjald í lífeyrissjóð.
Skatturinn veitir upplýsingar um skráningu verktaka á launagreiðendaskrá og skattalega meðferð tekna í sjálfstæðum atvinnurekstri.
Tryggingafélög bjóða þeim sem starfa sjálfstætt ýmsar tryggingar, m.a. slysatryggingar og rekstrarstöðvunartryggingar.
Mikill munur er á stöðu sjálfstætt starfandi einstaklings og launafólks, en lög og kjarasamningar tryggja launafólki ýmis réttindi sem sjálfstætt starfandi njóta ekki.
Sjálfstætt starfandi fá t.d. ekki borgaða orlofs- og desemberuppbót, fá ekki laun fyrir viðurkennda frídaga, fá ekki greitt orlof, eru ekki slysatryggðir, og eiga ekki rétt á launum í veikindaforföllum, svo eitthvað sé nefnt.
Þegar sjálfstætt starfandi reikna verð á útseldri vinnu verða þeir að gera ráð fyrir þessum kostnaði sem bætist þá við það kaup sem þeir vilja fá fyrir veitta þjónustu.
Sjálfstætt starfandi einstaklingar geta átt rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta hafi rekstur verið stöðvaður (launagreiðandaskrá lokað) og staðin hafi verið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi.
Sjá nánar á heimasíðu Vinnumálastofnunar.
Við gjaldþrot verkkaupa eiga verktakar ekki rétt á greiðslum úr Ábyrgðasjóði launa og enginn uppsagnarfrestur gildir.