Kjaraviðræður Visku á opinberum vinnumarkaði hafnar
Höfundur
Gauti Skúlason
Fulltrúar Visku hafa nú þegar fundað með samninganefndum Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Fyrir liggur fundur með samninganefnd ríkisins á allra næstu dögum.
Viska hefur formlega hafið kjaraviðræður við viðsemjendur sína á opinberum vinnumarkaði. Viska leggur áherslu á vönduð og skilvirk vinnubrögð enda hefur háskólamenntað launafólk setið eftir í kjaramálum á Íslandi undanfarin ár. Lífskjarasamningurinn 2019 skilaði öllu félagsfólki í BHM (þar á meðal félögum í Visku) langtum minni launahækkunum en félagsfólki aðildarfélaga ASÍ.
Framundan er því mikilvægt samtal við viðsemjendur á opinberum vinnumarkaði um kjara- og réttindamál félagsfólks í Visku.
„Við förum hóflega bjartsýn inn í komandi kjaraviðræður, en staðan er þröng á vinnumarkaði,“ segir Júlíana Guðmundsdóttir, aðalsamningamaður Visku og lögfræðingur félagsins. „Sem fyrr, þá nálgumst við kjarasamningsborðið af yfirvegun og festu. Fyrir liggur að félagsfólk okkar kom ekki nógu vel út úr lífskjarasamningunum og það eitt og sér þarf að laga.“
Viska heldur félagsfólki sínu upplýstu um gang kjaramála með reglubundnum hætti. Á fréttasafni vefsíðu félagsins getur þú fundið allar fréttir um yfirstandandi kjaraviðræður.