Beint í efni
1. maí 2024
Fréttir

End­ur­greiðsla LÍN lána tek­in til skoð­un­ar á kjara­samn­ings­tíma­bili

Höfundur

Gauti Skúlason

Gauti Skúlason

samskipti og markaðsmál

Fjármála- og efnahagsráðherra og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra stofna starfshóp um endurskoðun á reglum vegna endurgreiðslu LÍN lána.

Í kjarasamningi ríkisins við Visku sem undirritaður var 30. júní síðastliðinn og samþykktur í kosningum félagsfólks 8. júlí síðastliðinn er bókun þess efnis að stjórnvöld skipi starfshóp til að kortleggja áhrif endurgreiðslufyrirkomulags LÍN lána með tilliti til áhrifa á ævitekjur.

Samhliða kjarasamningnum sendu stjórnvöld frá sér yfirlýsingu um skipun þessa starfshóps í kjölfar heildarendurskoðunar á lögum um Menntasjóð námsmanna sem nú stendur yfir. Yfirlýsingin var undirrituð 27. júní 2024 af Sigurði Inga Jóhannssyni fjármála- og efnahagsráðherra og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Yfirlýsingin er svohljóðandi:

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 7. mars sl. í tengslum við aðgerðir stjórnvalda til stuðnings fjögurra ára kjarasamningum – Vaxandi velsæld segir að gerðar verði breytingar á lögum um Menntasjóð námsmanna sem lúta að því að létta vaxtabyrði og draga úr skyndilegum og ófyrirséðum hækkunum vegna verðbólgu og vaxta á afborganir námslána. Skal sú endurskoðun tekin fyrir samhliða boðaðri heildarendurskoðun á lögum um menntasjóð námsmanna og mun gagnast þeim sem hófu lánshæft nám eftir 2020 (H-lán).

Til að tryggja jafnræði á milli greiðenda R-lána, G-lána og H-lána í kjölfar boðaðrar heildarendurskoðunar verður skipaður starfshópur með fulltrúum umræddra ráðuneyta og BHM undir forystu fulltrúa HVIN, sem fær það verkefni að kortleggja áhrif endurgreiðslufyrirkomulags eldri lána LÍN með tilliti til áhrifa á ævitekjur. Markmið breytinga sem gerðar voru við stofnun Menntasjóðs námsmanna var að tryggja að endurgreiðslu námslána lyki fyrir eftirlaunaaldur. Ljóst að er að slíkt gildir ekki í fyrra kerfi og er mikilvægt að skoða samræmi þarna á milli. Hópnum verði sérstaklega falið að skoða áhrif mögulegra afskrifta í tengslum við eftirlaunaaldur og stöðu lántakenda með hæstu lánin.

Viska fagnar því að stjórnvöld vilji með virkum hætti skoða stöðu greiðenda LÍN lána og hyggst félagið á næstu árum fylgja þessari vinnu fast á eftir.