Beint í efni
Fjármálaráðuneytið
Fréttir

Hús­næð­isstuðn­ing­ur til eig­enda skor­inn nið­ur um meira en helm­ing

Höfundur

Vilhjálmur Hilmarsson

Vilhjálmur Hilmarsson

hagfræðingur Visku

Stuðningur til eigenda á næsta ári verður sá minnsti á öldinni

Ríkisstjórnin hyggst skera húsnæðisstuðning til eigenda niður um meira en helming á árinu 2025 þegar almenna séreignarúrræðið frá 2014 og sérstakur vaxtastuðningur á tíma kjarasamninga fellur úr gildi. Bætir það gráu ofan á svart fyrir heimilin sem glíma nú við verðbólgu á öllum jöðrum og horfa fram á vaxtaendurskoðun á 500 milljarða króna íbúðalánum. Óhjákvæmilegt og nauðsynlegt er að stjórnvöld hætti við niðurfellingu úrræðisins. Að öðrum kosti verður húsnæðisstuðningur við eigendur sá minnsti á öldinni á árinu 2025.

Er þetta meðal þess sem kemur fram í umsögn Visku um fjárlög 2025.

Mun minna stutt við húsnæðiseigendur á árunum 2018-23 en fyrri ár

Húsnæðisstuðningur við eigendur hefur verið mun minni á tíma núverandi ríkisstjórnar en á tíma fyrri ríkisstjórna. Nam stuðningurinn aðeins 0,4% af landsframleiðslu á árunum 2018–2023 eða 39 þús. krónum á hvern íbúa á verðlagi ársins 2023. Samanborið við 0,7% eða 64 þús.kr á íbúa árin 2012–2017 og 0,9% eða 78 þús. kr. á íbúa árin 2006–2011. Þó að ríkisstjórnin hafi veitt sérstökum einskiptis vaxtastuðningi til heimila með íbúðalán á árinu 2024 er ljóst að sú viðbót hrekkur skammt til að rétta af samanburð síðustu ára við fyrri ár á öldinni. 

Stuðningur við eigendur verður sá minnsti á öldinni á árinu 2025

Eftir 2014 var vaxtabótakerfið svo til afnumið af stjórnvöldum og almenna séreignarúrræðið varð meginstoð húsnæðisstuðnings við eigendur á Íslandi. Vægi þess í stuðningi við eigendur nam u.þ.b.   50% siðustu ár, eins og sést á myndinni hér að neðan. Verði úrræðið fellt burt til viðbótar við sérstakan vaxtastuðning á árinu 2024 er fyrirséð að húsnæðisstuðningur við eigendur dragist saman um meir en helming á árinu 2025. Húsnæðisstuðningur við eigendur á árinu 2025 verður þá sá langminnsti á öldinni.