Norrænt samstarf bókasafns- og upplýsingafræðinga
Höfundur
Gauti Skúlason
Viska stígur sín fyrstu skref inn í samstarfsnet norrænna stéttarfélaga sem sérhæfa sig í málefnum bókasafns- og upplýsingafræðinga.
Kjaradeild bókasafns- og upplýsingafræðinga innan Visku mun föstudaginn 6. september taka þátt í fjarfundi þar sem þessi stéttarfélög hittast og ræða sín á milli um þau málefni sem eru nú í brennidepli hjá þeim.
Þetta norræna samstarfsnet hittist nokkrum sinnum á ári til að eiga spjall og fræðast um hvaða áskoranir hin félögin eru að glíma við og hvernig þau leysa úr þeim.
Fulltrúar kjaradeildarinnar á þessum fundi eru Kristjana Mjöll Jónsdóttir Hjörvar formaður kjaradeildarinnar og Ragna Björk Kristjánsdóttir sem situr í stjórn kjaradeildarinnar.
„Þátttaka á fundinum er mjög mikilvæg fyrir stétt bókasafns- og upplýsingafræðinga á Íslandi en hún gefur okkur tækifæri á að bera okkur saman við kollega okkar á norðurlöndunum. Viska hefur lagt mikla áherslu á norrænt samstarf og passar þátttaka kjaradeildarinnar á þessum fundi vel við þá áherslu,“ sagði Kristjana Mjöll Jónsdóttir Hjörvar formaður kjaradeildar bókasafns- og upplýsingafræðinga.