Staða kjaraviðræðna við Reykjavíkurborg
Höfundur
Gauti Skúlason
Samninganefndir Visku og Reykjavíkurborgar funda með reglubundnum hætti þessa dagana og er góður gangur í viðræðunum.
Samningsaðilar eru í aðalatriðum sammála um þær breytingar sem verið er að innleiða á öllum vinnumarkaðinum í þeim kjarasamningum sem nú þegar hafa verið gerðir. Þar er m.a. átt við áframhaldandi þróun betri vinnutíma og launaþróunartryggingar fyrir opinbera markaðinn. Þó hefur enn ekki náðst full samstaða um launaþáttinn en vinna stendur yfir við að klára útfærslur á þeim hluta samningsins og tryggja jöfn laun fyrir jafn verðmæt störf.
Viska leggur mikla áherslu á að nýr kjarasamningur félagsins við Reykjavíkurborg líti dagsins ljós sem allra fyrst en án þess þó að gefinn sé afsláttur af meginkröfum. Sem fyrr er krafan um afturvirkni frá og með 1. apríl síðastliðnum ófrávíkjanleg af hálfu félagsins.