Viska og Sjóvá tryggja háskólanema
Höfundur
Gauti Skúlason
Viska og Sjóvá láta sig málefni háskólanema varða og bjóða öllum háskólanemum í Visku snjalltryggingu sér að kostnaðarlausu.
Í vikunni undirrituðu Birgir Viðarsson framkvæmdastjóri sölu og ráðgjafar hjá Sjóvá og Georg Brynjarsson framkvæmdastjóri Visku samstarfssamning. Í samningnum felst að nú er snjalltrygging í samstarfi við Sjóvá hluti af námsmannaþjónustu Visku.
Samstarf félaganna þýðir að háskólanemar í Visku fá snjalltæki, tölvu, hjól og rafhlaupahjól tryggð í gegnum Visku, án þess að þurfa að stofna til formlegra viðskipta við Sjóvá.
Samstarf Visku og Sjóvá á sér nokkurn aðdraganda og er undirritun samningsins afurð mikillar vinnu sem hefur átt sér stað síðasta hálfa árið. Sú vinna fólst meðal annars í kortlagningu á þörfum og hagsmunum háskólanema í gegnum samtöl við námsfólk og vinnustofu með háskólanemum. Þá skoðuðu félögin einnig þjónustu stéttarfélaga á Norðurlöndunum við námsfólk.
„Snjalltrygging er frábær viðbót inn í þjónustu okkar við þennan mikilvæga hóp. Með því að bæta ókeypis tryggingu inn í námsmannaþjónustu Visku stígum við skrefi nær því að líkjast þeim stéttarfélögunum á Norðurlöndunum sem við viljum helst bera okkur saman við. Hér er ekki bara um að ræða nýjung á Íslandi heldur einnig áfanga í þeirri nýsköpun sem stéttarfélagið Viska stendur fyrir,“ segir Georg Brynjarsson framkvæmdastjóri Visku.
„Við erum mjög ánægð með samstarf Sjóvá og Visku. Snjalltrygging okkar á auðvitað beint erindi við háskólanema, sem mega vart við því að missa síma og tölvu í skemmri eða lengri tíma og við erum stolt að vera samstarfsaðili Visku með þessa einstöku vöru” sagði Birgir Viðarsson framkvæmdastjóri sölu og ráðgjafar hjá Sjóvá.
Samstarfssamningur Visku og Sjóvá er stórt skref í uppbyggingu á námsmannaþjónustu Visku og ekki það síðasta. Áfram er unnið að því að treysta þjónustuna og samskiptin við háskólasamfélagið. Á dögunum skrifaði Viska undir samstarfssamning við Landssamtök íslenskra stúdenta sem hefur það að markmiði að efla þekkingu háskólanema á kjara- og réttindamálum á vinnumarkaði og vinna saman að stefnumótun um sameiginleg hagsmunamál.