Átak um geðheilbrigði á vinnustöðum
Höfundur
Gauti Skúlason
Í síðustu viku lauk átaki um geðheilbrigði á vinnustöðum. Viska var stoltur þátttakandi í átakinu og mun halda áfram að tala um þetta mikilvæga málefni.
Vikuna 7.–11. október var farið í átak til að vekja athygli á mikilvægi þess að vinnustaðir hlúi að andlegri heilsu starfsfólks og stuðli að geðheilbrigðu vinnuumhverfi. Mental - ráðgjöf stóð að átakinu í samstarfi við Visku, Advania, Reykjavíkurborg, Tixly – tix.is, Tryggingastofnun og Mannauð – félag mannauðsfólks á Íslandi.
Að njóta góðrar andlegrar heilsu er gríðarlega mikilvægt. Meðan við erum virk á vinnumarkaði notum við góðan hluta vökutímans við vinnu og þurfum að hafa orku og heilsu til þess að geta sinnt störfum okkar vel án þess að það gangi á heilsuna.
Til að njóta góðrar geðheilsu þurfum við að vera sátt við okkur sjálf og umhverfi okkar. Það þýðir að við þurfum að upplifa jafnvægi, öryggi og ánægju bæði í lífi og starfi og vera fær um að aðlagast breytilegum aðstæðum og takast á við áskoranir. Við þurfum að temja okkur góðar venjur til að viðhalda jafnvægi í lífinu og skoða hvernig okkur gengur að stýra álagi í vinnu og einkalífi.
Góð andleg heilsa starfsfólks er jafn mikilvæg og líkamleg heilsa og hefur áhrif á framleiðni og samskipti á vinnustað. Ef vinnustaðir bregðast ekki við heilsuvanda starfsfólks getur það leitt til aukinna fjarvista og alvarlegra heilsufarslegra afleiðinga til lengri tíma litið.
Það getur verið áskorun fyrir vinnustaði að viðhalda góðum vinnuaðstæðum og tryggja gott vinnuumhverfi sem ýtir undir góða geðheilsu. Góður starfsandi á að fela í sér skilning fyrir andlegum áskorunum og bjóða upp á rými til að ræða hvernig okkur líður án þess að mæta dómhörku. Stjórnendur gegna hér lykilhlutverki með því að hvetja starfsfólk til að leita sér aðstoðar ef á þarf að halda.
Ef þér líður illa í vinnunni þá er Viska til staðar fyrir þig, þú getur sent okkur erindi eða haft beint samband við okkur í síma 583 8000.