85% sérfræðinga hjá ríkinu sjá tækifæri til hagræðingar
Höfundur
Vilhjálmur Hilmarsson
85% sérfræðinga hjá ríkinu sjá tækifæri til hagræðingar á sínum vinnustað, og 86% eru hlynnt áformum um aukið hagræði í ríkisrekstri. Starfsfólk upplifir að ekki sé hlustað á þeirra sjónarmið, þrátt fyrir dýrmæta innsýn í starfsemi stofnana. Flatur og ómarkviss niðurskurður hefur leitt til þess að álag er við þolmörk á mörgum stofnunum. Þetta er meðal þess sem lesa má úr könnun meðal félagsfólks Visku sem fór fram dagana 3.-13. janúar. Alls svöruðu um 400 sérfræðingar könnuninni.
Viska hvetur stjórnvöld til að hlusta á starfsfólk stofnana og minnir á að sterkur ríkisrekstur byggir á góðum kjörum og öflugum mannauði.
Úrelt tækni virðist kalla á brýnar úrbætur hjá ríkinu. Eins og tveir svarendur lýsa því: Kerfin sem ríkið er að nota eru afar óhagkvæm“… „Gamlar tæknilausnir valda því að pappírsstimplanir og músaklikk eru fleiri en þurfa þyrfti. Það kostar að breyta en ávinningurinn mikill til lengri tíma litið.“ Ríkið er þá sagt greiða of mikið fyrir vörur og þjónustu: „… söluaðilar eru sammála um að það gildi oft á tíðum hærri verð (í innkaupum) en (lægsta verð) á einkamarkaði“. Mörg segja þá aðkeypta þjónustu algenga jafnvel þótt hægt sé að nýta mannauð innanhúss. Oft sé verið að reiða sig á aðkeypta sérfræðinga með tugþúsunda tímagjald að óþörfu.
Sögur ríkisstarfsfólks má sjá í tilvitnunum að neðan.
Sögur ríkisstarfsfólks – forgangsröðun og stefnumörkun skortir
- „Ég tel að það séu víða tækifæri til að fara betur með fjármagn án þess að það komi niður á þjónustu, starfsaðstöðu eða starfsfólki.“
- „Skiptir miklu máli að stíga varlega til jarðar…verkefnið er ekki leyst á einni nóttu en það eru mörg tækifæri til langtímasparnaðar.“
- „Mér þykir ákaflega miður að fylgjast með umræðu um starfsfólk í stjórnsýslunni. Við höfum litla rödd í sem mótvægi við þær háværu raddir sem tala okkur niður.“
- „Það er engin skýr sýn á forgangsröðun og erfitt að fá skýr svör.“
- „Það er mjög mikilvægt að stjórnvöld hafi kjark til að forgangsraða svo við getum verið markvissari í okkar störfum.“
- „Greiningarvinna sem undanfari hagræðingar er lykilatriði - hagræðing er ekki sama og niðurskurður - stundum þarf að auka útgjöld til að hagræðing sýni árangur - hvaða niðurstöður vilja stjórnvöld sjá?“
- „Stjórnvöld virðast ekki alltaf vita hvaða starfsemi á sér stað á stofnunum. Raunverulegt samtal og samráð sparar mikla fjármuni. Mikil vinna tapast ítrekað vegna sífelldra stefnubreytinga.“
- „Flatur niðurskurður felur í sér óhagræði – það þarf stefnumiðaða sýn en ekki handahófskenndar aðgerðir.“
- „Helsta óhagræðið felst í ómarkvissum hagræðingum sem byggja á sýndarmennsku… oft er svo til vonlaust að ná lögbundnum markmiðum stofnunar í framhaldi, hvort heldur sem er um þjónustu eða framkvæmdir.“
- „Sumar stofnanir hafa þurft að fylgja nokkurra prósenta hagræðingarkröfu um árabil. Þar hefur hagræðingin komið sterkt fram í auknu álagi á starfsfólk og frestun nauðsynlegra verkefna. Þetta getur endað í vítahring og og mikill spekileki skapast. Hagræðing hagræðingarinnar vegna er ekki góð aðferðarfræði. Það kostar að reka þjóðríki.“
Sögur ríkisstarfsfólks – bruðl í innkaupum og gamaldags tækni
- „… söluaðilar eru sammála um að oft gildi hærri verð en (lægsta verð) á einkamarkaði. Einnig eru birgjar til í að ganga mjög illa fram þar sem þeir vita að ekki er hægt að meina þeim þátttöku í næsta útboði.“
- „Skilvirkari rammasamningar... auðvelda innkaupaferla hjá ríkinu, núverandi fyrirkomulag er oft á tíðum íþyngjandi og tímafrekt.“
- „Það mætti auka sameiginleg innkaup stofnana á tæknilausnum og þjónustu; skjalavistunarkerfi, samningar um tæknilega aðstoð og svo framvegis.“
- „"Áskrift" fyrirtækja að verkefnum er ávísun á sóun. Það á að bjóða út öll verkefni og tryggja að ríkið sé eigandi lausna.“
- „Margar ráðgjafastofur hafa stóran hluta tekna af ríkinu“…. „hve oft þarf að fara í gildisvinnu?“
- „Mér finnst skipta máli að þegar vinnuhópar eru settir á laggirnar að þeir skili af sér skýrum niðurstöðum, þeim sé haldið til haga opinberlega og lærdómur dreginn af þeim. Við erum að sýsla með fjármagn fólks og það ber að sýna ráðvendni.“
- „Upplýsingakerfi er "heimasmíðað"…það þarf að nýta nútíma tækni til utanumhalds. Ekki 20 ára gömul Excel skjöl/formöt.“
- „að öllu meðtöldu er kostnaðarsamara að vera háður utanaðkomandi aðilum um mikilvægan kerfisrekstur og þróun hugbúnaðar.“
- „Ríkissjóður greiðir í raun oft tvöfalt fyrir hugbúnaðarleyfi og hugbúnaðarlausnir.“
- „Endurtekin verkefni er hægt að sjálfvirknivæða. Á mínum vinnustað er "róbóti" sem sinnir 2 og 1/2 stöðugildi í leiðinlegum endurteknum verkefnum.“
- „Kerfin sem ríkið er að nota eru afar óhagkvæm“… „Gamlar tæknilausnir valda því að pappírsstimplanir og músaklikk eru fleiri en þurfa þyrfti. Það kostar að breyta en ávinningurinn mikill til lengri tíma litið.“
- „Fara varlega í sameiningar, við sameiningu er stundum verið að sameina stofnanir sem hafa mjög mismunandi markmið, enda þótt þeir sem ekki til þekkja til skilji það ekki. Svo má hafa það í huga að verkefni hverfa ekki við sameiningu stofnana þannig að samlegð getur verið mjög takmörkuð við sameiningu.“
- „Oft er verið að leigja húsnæði í stað þess að eiga en við erum ekki að njóta viðeigandi þjónustu frá leigusala, þ.e. kostnaður fellur á stofnun við viðhald og annað slíkt.“
- „Það þarf meiri hvata í launakerfi ríkisins til að fleiri afli sér doktorsmenntunar. Þekkingarstig, frumkvæðni, sjálfstæði, afkastageta og framlegð fólks sem ræðst til starfa með doktorspróf í samanburði við þau sem hafa meistarapróf eru jafnan miklu meiri. Þessi munur er hinsvegar ekki endurspeglaður í launum þessa fólks samkvæmt kjarasamningum. Þetta þarf að laga og mun leiða til hagræðingar þegar fram líða stundir.“
- „(um skort á hvötum) Eina óhagræðið sem ég sé er að það sé ekki hægt að skila rekstrarafgangi sem ríkisstofnun, annars á maður á hættu að fá skerðingu á næsta ári. Rekstrarárin eru misjöfn og því ætti að vera hvati til þess að skila afgangi án þess að eiga á hættu að fá skerðingu.“