Beint í efni
Ungt fólk situr saman í stiga og bendir á tölvu
Fréttir

Kaup­mátt­ur ungs fólks stað­ið í stað í tutt­ugu ár

Höfundur

Vilhjálmur Hilmarsson

Vilhjálmur Hilmarsson

hagfræðingur Visku

Kaupmáttur ungs fólks á aldrinum 30–39 ára hefur staðið í stað í tvo áratugi á Íslandi, þar af í 25 ár hjá körlum. Á sama tíma hefur ójöfnuður milli kynslóða aukist mun meir á Íslandi en á öðrum Norðurlöndum. Kaupmáttur fólks yfir sextugu á Íslandi hefur aukist þrefalt til fjórfalt á við kaupmátt 30-39 ára á öldinni.

Um þetta er fjallað í greiningu Visku í nóvember.

Þreföld til fjórföld kaupmáttaraukning hjá fólki yfir sextugu

Fólk yfir sextugu hefur aukið kaupmátt sinn þrefalt til fjórfalt á við 30-39 ára á þessari öld. Á meðan fólk á aldrinum 30-39 ára upplifði aðeins 19% aukningu í kaupmætti ráðstöfunartekna, jókst kaupmáttur 60-69 ára um 64% og kaupmáttur 70 ára og eldri um 75%. Þessi þróun sýnir skýrt að ójöfnuður milli kynslóða er vaxandi á Íslandi og hagvöxtur hefur dreifst afar ójafnt milli aldurshópa. Sjá mynd að neðan sem sýnir kaupmáttaraukningu eftir aldri 1999-2024.

Kaupmáttur 30-39 ára karla staðið í stað í 25 ár

Kaupmáttur ráðstöfunartekna jókst með fordæmalausum hraða á árunum fyrir hrun en dróst hratt saman frá 2007 til 2010. Tímabilið eftir 2010 hefur einkennst af baráttu allra hópa til að endurheimta fyrri kaupmátt. Árangurinn hefur hins vegar verið afar misjafn eftir aldurshópum en þar hefur ungt fólk orðið langsamlega verst úti.

Kaupmáttur meðaltals ráðstöfunartekna hjá 30-39 ára er sá sami í dag og hann var fyrir tuttugu árum. Hjá 30-39 ára körlum hefur stöðnunin varað í 25 ár. 30-39 ára karlar höfðu sem sagt sama kaupmátt á árinu 1999 og 30-39 ára karlar hafa á árinu 2024! Staðan er lítillega betri hjá konum. Sjá mynd að neðan sem sýnir kaupmáttarvísitölu 30-39 ára, þar sem kaupmætti ársins 1999 er gefið gildið 100.

Ójöfnuður milli kynslóða er að aukast mun hraðar á Íslandi

Ójöfnuður milli kynslóða hefur aukist tvisvar sinnum hraðar á Íslandi en á öðrum Norðurlöndum. Munur á kaupmáttaraukningu 30-39 ára og fólks yfir sextugu hefur verið 45-56% á Íslandi á öldinni en aðeins 23-31% í Danmörku og Svíþjóð. Unga fólkið virðist vera í allt annarri stöðu á Íslandi en á öðrum Norðurlöndum, í samanburði við eldri kynslóðir.  

Þessi mikli munur í kaupmáttaraukningu eftir aldri á Íslandi hefur gert að verkum að ungt fólk á Íslandi býr nú við svipaðan eða verri kaupmátt en jafnaldrar á Norðurlöndum en eldra fólkið er betur sett. Kaupmáttur fólks yfir sextugu er var 7-13% meiri á Íslandi árið 2022 en í Danmörku og Svíþjóð.

Fimm sinnum meiri óstöðugleiki í kaupmætti ungs fólks

Ungt fólk á aldrinum 30-39 ára stendur ekki einungis höllum fæti miðað við jafnaldra sína á Norðurlöndum þegar kemur að kaupmætti í núinu heldur er óstöðugleiki í kjörum þeirra mun meiri hér en á öðrum Norðurlöndum. Kaupmáttur 30-39 ára hefur sveiflast fimm sinnum meira hér á öldinni en hjá jafnöldrum í Danmörku og Svíþjóð. Út frá mælikvarða tölfræðilegs breytileika.

Af hverju stendur ungt fólk höllum fæti?

Vanda ungs fólks á Íslandi má að miklu leyti rekja til hvernig samfélagið á Íslandi þróaðist eftir hrun. Hagvöxturinn hefur að mestu birst í láglaunagreinum en hlutdeild ferðaþjónustu í landsframleiðslunni hefur rúmlega tvöfaldast frá 2010. Vægi ferðaþjónustu er óvíða meiri en á Íslandi - fjöldi ferðamanna er fimmfalt meiri en í löndum eins og Ítalíu, Frakklandi og Spáni, miðað við höfðatölu.

Á sama tíma og hagkerfið skapaði láglaunastörf að mestu hefur ungt fólk flykkst í háskólanám, einkum ungar konur. Hlutdeild ungra kvenna með háskólamenntun hefur stórlega aukist á öldinni en menntunarstig ungra karla svo til staðið í stað. Hlutfall 30-34 ára karla með háskólamenntun á Íslandi er með því lægsta sem þekkist meðal þróaðra landa.

Síðast en ekki síst hefur hlutfall innflytjenda af mannfjölda á aldrinum 30-39 ára stóraukist, úr 7% árið 2000 í tæplega 40% í dag. Þessi þróun hefur breytt samsetningu vinnumarkaðarins verulega. Staða innflytjenda á vinnumarkaði er ekki eins sterk og hjá innfæddum.

Hvað sem þróun hagkerfisins líður er ekki hægt að útiloka að stjórnvöld hafi einfaldlega einblínt um of á hag eldra fólks eftir hrun, á kostnað þeirra sem yngri eru. Eignaójöfnuður hefur aukist á síðustu árum,  fjármagnstekjur runnið að mestu til eldri kynslóða og misræmi hefur verið á milli þess sem atvinnulífið þarfnast og þess sem fólk menntar sig til. Til að stemma stigu við bágri stöðu unga fólksins þarf að móta nýja atvinnustefnu sem skapar hálaunastörf í stað láglaunastarfa. Veita þarf stöðu innflytjenda sérstaka athygli, auka íslenskukennslu og auka tækifæri til framgangs á vinnumarkaði. Tryggja þarf að skólar á Íslandi séu samkeppnishæfir á við Norðurlönd á öllum skólastigum og beina þarf ungu fólki á réttar brautir í framhaldsskóla og háskóla. Veita þarf stöðu ungra karla á Íslandi meiri athygli ásamt því að tryggja að háskólamenntun kvenna sé rétt metin. Stjórnvöld á Íslandi þurfa einfaldlega að taka vanda unga fólksins alvarlega og forgangsraða meira í þágu ungs fólk til framtíðar.