Kaupmáttur ungs fólks staðið í stað í tuttugu ár
Höfundur
Vilhjálmur Hilmarsson
Kaupmáttur ungs fólks á aldrinum 30–39 ára hefur staðið í stað í tvo áratugi á Íslandi, þar af í 25 ár hjá körlum. Á sama tíma hefur ójöfnuður milli kynslóða aukist mun meir á Íslandi en á öðrum Norðurlöndum. Kaupmáttur fólks yfir sextugu á Íslandi hefur aukist þrefalt til fjórfalt á við kaupmátt 30-39 ára á öldinni.
Um þetta er fjallað í greiningu Visku í nóvember.
Hvað sem þróun hagkerfisins líður er ekki hægt að útiloka að stjórnvöld hafi einfaldlega einblínt um of á hag eldra fólks eftir hrun, á kostnað þeirra sem yngri eru. Eignaójöfnuður hefur aukist á síðustu árum, fjármagnstekjur runnið að mestu til eldri kynslóða og misræmi hefur verið á milli þess sem atvinnulífið þarfnast og þess sem fólk menntar sig til. Til að stemma stigu við bágri stöðu unga fólksins þarf að móta nýja atvinnustefnu sem skapar hálaunastörf í stað láglaunastarfa. Veita þarf stöðu innflytjenda sérstaka athygli, auka íslenskukennslu og auka tækifæri til framgangs á vinnumarkaði. Tryggja þarf að skólar á Íslandi séu samkeppnishæfir á við Norðurlönd á öllum skólastigum og beina þarf ungu fólki á réttar brautir í framhaldsskóla og háskóla. Veita þarf stöðu ungra karla á Íslandi meiri athygli ásamt því að tryggja að háskólamenntun kvenna sé rétt metin. Stjórnvöld á Íslandi þurfa einfaldlega að taka vanda unga fólksins alvarlega og forgangsraða meira í þágu ungs fólk til framtíðar.