
Mikil aðsókn í aðstoð Visku við skil á skattframtali
Höfundur

Gauti Skúlason
Í byrjun mars bauð Viska félagsfólki sínu upp á aðstoð við skil á skattframtali í formi netnámskeiða og einstaklingsráðgjafar. Góð aðsókn var á námskeiðin og bókuðust tímar í einstaklingsráðgjöf upp.
Námskeiðin og einstaklingsráðgjöfin eru orðnir fastir liðir í þjónustu félagsins og mun Viska endurtaka leikinn að ári. Stöðugt er unnið að því að bæta þjónustuna og aðgengi félagsfólks að henni.
„Aðstoð Visku við skil á skattframtali er komin til að vera, þessi þjónusta hefur mælst mjög vel fyrir hjá félagsfólki, þetta er eitthvað sem við viljum þróa áfram í samstarfi við okkar félagsfólk og bæta frá ári til árs. Til dæmis var hafður sá háttur á núna að eftir hvern tíma í einstaklingsráðgjöf fengu félagar póst með stuttri þjónustukönnun um hvernig þeim fannst ráðgjöfin, hvað við getum gert betur o.s.frv. Við hlökkum til að halda áfram þróun á þessari þjónustu og munum halda áfram að efla hana. Þá eru líka nýjar þjónustuleiðir eins og t.d. persónubundin lífeyrisráðgjöf til félagsfólks í deiglunni hjá okkur og við munum brátt auglýsa hana fyrir okkar félagsfólk,“ segir Georg Brynjarsson framkvæmdastjóri Visku.
Ef félagsfólk hefur ábendingar eða hugmyndir sem snúa að skattaráðgjöf Visku eða annarri ráðgjöf sem Viska getur boðið félagsfólki sínu þá er hægt að senda fyrirspurn á skrifstofu Visku.