
SÍNE og Viska í samstarf
Höfundur

Georg Brynjarsson
Nýverið undirrituðu Samband íslenskra námsmanna erlendis (SÍNE) og Viska – stéttarfélag samstarfssamning um fræðslu á sviði kjara- og réttindamála fyrir háskólanema sem snúa aftur til Íslands eftir nám erlendis.
Á undanförnum misserum hefur Viska efnt til samstarfs við námsmannahreyfinguna á Íslandi með það að markmiði að efla þekkingu háskólanema á kjara- og réttindaumhverfi á íslenskum vinnumarkaði. Viska hefur þegar gert samstarfssamninga við Stúdentafélag Háskólans í Reykjavík, Stúdentafélag Háskólans á Akureyri, Stúdentaráð Háskóla Íslands og Stúdentaráð Listaháskóla Íslands. Þá hefur Viska einnig þróað námsmannaþjónustu sína í samstarfi við háskólanema og nemendafélög þeirra.
Háskólanemar erlendis geta skráð sig í námsmannaþjónustu Visku sér að kostnaðarlausu. Með því fá þeir aðgang að frírri þjónustu og ráðgjöf frá Visku. Þá býður Viska háskólanemum erlendis einnig upp á fría snjalltryggingu í allt að þrjá mánuði.
„Við hjá SÍNE bindum miklar vonir við samstarf okkar við Visku en það getur reynst háskólanemum sem hafa verið í námi erlendis flókið að snúa aftur inn á íslenskan vinnumarkað. Það er stundum óljóst hvaða réttindi fólk hefur í kerfinu eftir að hafa dvalið erlendis og einnig er erfitt að nálgast þær upplýsingar. Það er því mikil þörf á því að háskólanemar sem eru að flytja aftur til Íslands eftir námsdvöl erlendis, hafi aðgang að greinargóðum upplýsingum um næstu skref á vinnumarkaði og auðvitað er frábært fyrir okkur að hafa aðgang að sérfræðiþekkingu Visku í þeim efnum“, segir Þórdís Dröfn Andrésdóttir forseti SÍNE.
„Við hjá Visku erum mjög spennt fyrir samstarfi okkar við SÍNE og bjóðum þau velkomin í hóp okkar góðu samstarfsaðila í námsmannahreyfingunni. Líkt og önnur samstarfsverkefni okkar við námsmannahreyfinguna þá er samstarf okkar við SÍNE mjög mikilvægt. Fyrir litla Ísland skiptir það ofboðslega miklu máli að sérfræðiþekking sem verður til erlendis skili sér aftur heim. Þegar kemur að því að snúa aftur heim úr námi erlendis frá er að ýmsu að huga, sérstaklega tengt réttindum á vinnumarkaði og þar viljum við hjá Visku veita alla þá aðstoð sem við getum veitt í formi þjónustu og fræðslu“, segir Gauti Skúlason verkefnastjóri samskipta og markaðsmála hjá Visku.