Beint í efni
viska_listahaskolinn-2.jpg
Fréttir

Viska og SLHÍ taka hönd­um sam­an

Höfundur

Georg Brynjarsson

Georg Brynjarsson

framkvæmdastjóri

Viska og Stúdentaráð Listaháskóla Íslands (SLHÍ) hafa gert með sér samstarfssamning um fræðslu til háskólanema á sviði kjara- og réttindamála.

Viska hefur þegar gert sambærilega samninga við Stúdentafélag Háskólans í Reykjavík, Stúdentafélag Háskólans á Akureyri og Stúdentaráð Háskóla Íslands. Markmið þessara samninga er að efla þekkingu háskólanema á kjara- og réttindaumhverfi íslensks vinnumarkaðar. Jafnframt stuðla þeir að áframhaldandi þróun Námsmannaþjónustu Visku, sem veitir nemendum mikilvægan stuðning frá skólabekk og út á vinnumarkaðinn.

Nemendur við Listaháskóla Íslands fá ekki einungis fræðslu frá Visku heldur geta einnig skráð sig í Námsmannaþjónustu Visku. Með því fá þeir aðgang að ráðgjöf sérfræðinga Visku ásamt snjalltryggingu fyrir síma og tölvu, þeim að kostnaðarlausu.

„Það er frábært að sjá SLHÍ bætast við hóp af þeim hagsmunasamtökum háskólanema sem við höfum þegar gert samstarf við. Okkur hjá Visku er mjög annt um hagsmunabaráttu háskólanema og viljum aðstoða stúdentahreyfinguna í sinni réttindabaráttu. Þá er mjög mikilvægt að vera í góðu samtali við háskólanema og að samstarf Visku við námsmannahreyfinguna fari fram á forsendum háskólanema. Samstarfssamningar okkar við nemendafélögin tryggja það,“ segir Gauti Skúlason, verkefnastjóri samskipta og markaðsmála hjá Visku.

„Við hjá SLHÍ erum ánægð með að fá Visku til liðs við okkur, það er mikil eftirspurn hjá ungu fólki sem er að útskrifast úr háskólanámi eftir fræðslu um kjara- og réttindamál á vinnumarkaði. Þá þarf réttindabarátta háskólanema á allri þeirri aðstoð að halda sem býðst og frábært að fá Visku til liðs við okkur í því. Við hlökkum til samstarfsins og erum handviss um að það mun reynast nemendum við LHÍ vel,“ sagði Steinunn Thalia J. Claessen forseti SLHÍ.