Atvinnuleit
Leit að starfi er heilmikið verkefni sem krefst tíma, þekkingar og góðra verkfæra. Mikilvægt er að skipuleggja sig, setja sér markmið og huga að næstu skrefum svo að atvinnuleitin verði áhrifaríkari og takmarkið náist sem fyrst. Vinnumálastofnun hefur tekið saman góðar upplýsingar um hvernig eigi að hátta málum þegar þú ert í atvinnuleit.
Góð ráð í atvinnuleit
Ýmsar leiðir eru mögulegar í atvinnuleit, því miður er ekki hægt að segja hver þeirra kemur til með að ráða úrslitum. Hins vegar hefur það sýnt sig að því fleiri leiðir sem nýttar eru því meiri eru möguleikarnir. Hafa ber í huga að lítill hluti af lausum störfum er auglýstur opinberlega því skiptir frumkvæði og áræðni þeirra sem eru í atvinnuleit miklu máli. Nauðsynlegt er að hafa allar klær úti, nota hefðbundnar og óhefðbundnar leiðir og huga að atvinnuleitinni eins og hverri annarri vinnu.
Leit að starfi er heilmikið verkefni sem krefst tíma, þekkingar og góðra verkfæra. Mikilvægt er að skipuleggja sig, setja sér markmið og huga að næstu skrefum svo að atvinnuleitin verði áhrifaríkari og takmarkið náist sem fyrst.
Ýmsar leiðir eru mögulegar í atvinnuleit, því miður er ekki hægt að segja hver þeirra kemur til með að ráða úrslitum. Hins vegar hefur það sýnt sig að því fleiri leiðir sem nýttar eru því meiri eru möguleikarnir.
Hafa ber í huga að lítill hluti af lausum störfum er auglýstur opinberlega því skiptir frumkvæði og áræðni þeirra sem eru í atvinnuleit miklu máli. Nauðsynlegt er að hafa allar klær úti, nota hefðbundnar og óhefðbundnar leiðir og huga að atvinnuleitinni eins og hverri annarri vinnu.
Algengt er að fólk leiti beint til þeirra fyrirtækja og stofnana sem það hefur áhuga á að starfa hjá og er mikilvægt að fylgjast með á heimasíðum þeirra hvort laus störf eru í boði. Hægt er að skrá sig í atvinnuleit á heimasíðu vmst.is en þar eru ný störf skráð daglega og einnig er ráðlegt að skrá sig hjá öðrum ráðningarþjónustum og fylgjast með hvaða störf eru auglýst þar. Tengslanetið er ekki síður mikilvægt og getur verið gott ráð að láta sem flesta vita að verið er að leita að starfi.
Atvinnuleit má líkja við fullt starf. Að ýmsu þarf að huga líkt og að gera ferilskrá, kynningarbréf, skrá sig á ráðningarþjónustur og margt fleira. Áður en ráðist er í þessa hluti er þó ráðlegt að fara í smá sjálfsskoðun og spyrja sig eftirfarandi spurninga:
- Hvað vil ég?
- Hvar liggur áhugi minn?
- Hvaða eiginleika hef ég?
- Hvaða starf hentar mér?
- Hverjir eru styrkleikar mínir?
Þetta eru spurningar sem henta öllum þeim sem af einhverri ástæðu eru á milli starfa, að skipta um starf eða eru að koma á vinnumarkaðinn í fyrsta skipti. Tilgangurinn með að leita svara hjá sjálfum sér er til að auðvelda atvinnuleitina og vali á starfi. Því betur sem einstaklingur þekkir sjálfan sig og því betur sem hann setur fram upplýsingar um sjálfan sig þeim mun meiri líkur eru á að hann fái starf við hæfi.
Það getur reynst sumum erfitt að átta sig á hvaða starfsumhverfi hentar best, í þeim tilfellum getur verið ágætt að taka áhugasviðskönnun. Hún getur styrkt fólk í að átta sig á áhuga sínum og í hvers konar starfsumhverfi þeir vilja vinna.
Vinnumálastofnun býður upp á áhugasviðskönnun að kostnaðarlausu. Hafið samband við næstu þjónustuskrifstofu til að komast að hvenær næsta áhugasviðskönnun er í boði. Það þarf ekki að skrá sig, bara mæta á auglýstum tíma og fylla út könnunina. Niðurstöðurnar eru svo tilbúnar í vikunni á eftir og fylgir þá ítarlegt viðtal með ráðgjafa.
Atvinnuleit er tímafrek og krefjandi, það þarf að gefa sér tíma. Best er að huga að atvinnuleitinni sem hverri annarri vinnu.
Gott er að miða við að sækja um ákveðið mörg störf á viku.
Sæktu um þau störf sem þú hefur áhuga á, sama hvort það er til skamms eða langs tíma.
Það getur tekið tíma að komast í óskastarfið. Gott er að skrifa niður á blað hvaða önnur störf geta verið áhugaverð og sækja um þau. Það er alltaf auðveldara að komast í draumastarfið þegar maður er í starfi.
Ef ekkert heyrist frá atvinnurekanda eftir að sótt hefur verið um starf, þá má hringja eða senda tölvupóst og fá upplýsingar um gang mála.
Eftirfylgni: Haltu utan um atvinnuleitina með því að skrá niður eftirfarandi upplýsingar
- Atvinnuauglýsinguna (ef farið er eftir auglýsingu).
- Nafn á fyrirtæki sem sótt er um hjá.
- Starfsheiti sem sótt var um.
- Upplýsingar um tengilið hjá fyrirtæki; nafn, sími, netfang.
- Starfshlutfall.
- Dagsetningu umsóknar.
- Umsóknarfrest.
- Hvernig sótt var um starfið (í gegnum auglýsingu, ábendingu, tengslanet, annað).
- Staða umsóknar; neitun, viðtal, annað.
Haltu utan um atvinnuumsóknir þínar með sérstöku eyðublaði frá Vinnumálastofnun.
Í atvinnuleit er markvisst unnið að því að koma sér á framfæri á vinnumarkaðnum og má líkja þessu við markaðssetningu á sjálfum sér. Ferilskráin og kynningarbréfið eru aðalmarkaðstækin í þessu ferli og skiptir því miklu máli að það sé vandað til verka við gerð þeirra.
Það borgar sig að eyða góðum tíma í ferilskrána, huga þarf vel að efnisinnihaldi, uppsetningu og málfari. Uppsetning þarf að vera skýr og upplýsingar hnitmiðaðar. Forðast skal beinan texta. Ferilskráin þarf að vera grípandi og forvitnileg þannig að ráðningaraðila langi til að hitta umsækjandann eftir að hafa lesið hana. Hún getur því verið það tæki sem markar fyrstu tengsl milli umsækjanda og ráðningaraðila og getur góð ferilskrá ráðið úrslitum um hvort umsækjandi fái starfið.
Ferilskráin er stutt kynning á umsækjanda þar sem ákveðnar grunnupplýsingar koma fram. Lengd hennar er yfirleitt 1 til 2 blaðsíður. Líkja má upplýsingum sem þurfa að vera í ferilskrá við pýramída, einstaklingurinn er undirstaðan, fyrir ofan kemur menntun svo starfsreynsla og efst eru aðrir persónulegir þættir líkt og hæfni, þekking og áhugamál. Til hliðar eru svo upplýsingar um meðmælenda sem vísað er á til að gefa umsögn um umsækjandann.
Atvinnuleitendum hjá Vinnumálastofnun býðst ráðgjöf og/eða námskeið í gerð ferilskrár. Hafðu samband við þína þjónustuskrifstofu til að sjá nánar námskeið. Smelltu hér til að fá yfirlit yfir námskeiðin á hverju þjónustusvæði.
Í ferilskránni þurfa eftirfarandi upplýsingar að koma fram:
Persónuupplýsingarnar geta verið mismunandi ítarlegar, mikilvægt er þó að þar komi fram nafn, heimilisfang, virkt símanúmer og netfang til að ráðningaraðili geti náð í umsækjandann.
Upplýsingar um menntun. Heiti skóla og náms, gráða og útskriftarár. Ef einstaklingur hefur klárað framhaldsnám þá er óþarfi að nefna grunnskóla ef námi hefur ekki verið lokið þá er hægt að skrifa ólokið fyrir aftan heiti náms. Byrja að skrá það nám sem síðast var lokið og bæta við upplýsingum um námið og viðfangsefni lokaritgerðar ef einhver er. Hægt er að nefna námskeið hér en einnig er hægt að láta öll námskeið í sér kafla.Upplýsingar um starfsreynslu. Vinnustaður, starfsheiti og tímabil. Ágætt er að greina frá helstu verkefnum og ábyrgð í starfi. Byrja að skrá það starf sem einstaklingur sinnir núna eða sem hann sinnti síðast. Aðrar upplýsingar. Einstaklingur velur sjálfur hvað hann skráir í ferilskrána en algengast er að greina frá tungumála- og tölvukunnáttu, félagsstörfum, áhugamálum og greinaskrifum. Sumir velja að skrifa stutta persónulýsingu og setja þessar upplýsingar inn í þann texta. Það þarf bara að huga að því að hafa upplýsingarnar ekki of ítarlegar.
Upplýsingar um meðmælendur. Nafn, staða og símanúmer. Mjög gott er að hafa tvo umsagnaraðila. Æskilegt er að benda á næsta yfirmann en einnig er til dæmis hægt að hafa samstarfsmenn, kennara eða viðskiptavini. Meðmælendur mega ekki vera fjölskyldumeðlimir eða vinir. Ef atvinnuleit á að fara leynt þarf að koma fram að meðmæla skuli leita þegar búið er að hafa samráð við umsækjandann.
- Gott er að eiga vandaða ferilskrá sem hægt er að aðlaga eftir þörfum.
- Það er ekki nauðsynlegt að skrá allt nám/námskeið eða öll störf sem einstaklingur hefur gegnt. Aðeins það sem skiptir máli fyrir starfið sem sótt er um hverju sinni.
- Ef um margar, stuttar, tímabundnar ráðningar í sambærileg störf er að ræða þá er hægt að draga þær saman og greina frá þeim á einum stað.
- Dragðu fram styrkleika þína sem gætu gagnast í starfinu sem sótt er um. Gefðu hnitmiðað og stutt dæmi sem staðfesta það.
- Lýstu markmiðum þínum varðandi starfsþróun þína og hvaða þætti þú vilt þjálfa.
- Ef einstaklingur hefur ekki mikla reynslu úr atvinnulífinu er hægt að segja aðeins frá sjálfum sér, hvað hann hefur fengist við og hver helstu áhugamálin eru. Gera grein fyrir hvers vegna hann gæti skilað góðu starfi, t.d. eru einhver dæmi sem sýna að hann geti tekið ábyrgð, geti unnið með öðrum eða að hann hafi ríka þjónustulund? Nauðsynlegt er að draga fram það sem getur vakið áhuga atvinnurekandans það þarf ekki að vera reynsla úr atvinnulífinu.
- Allt sem er skráð í ferilskrána þarf að vera gert af heiðarleika og þarf umsækjandi að vera tilbúinn í viðtali að gera grein fyrir öllu því sem kemur fram. Ef umsækjandi hefur verið án atvinnu þarf hann að geta greint frá því hvers vegna hlé hefur orðið á starfsferlinum.
- Mjög mikilvægt er að láta einhvern lesa ferilskrána vandlega yfir til að koma í veg fyrir innsláttar- eða stafsetningarvillur.
- Gott er að vista bréfið með nafni umsækjandans eða kennitölu, helst sem pdf skjal.
Vinnumálastofnun hefur búið til sniðmát af ferilskrá.
Kynningarbréfið er annað mikilvægt markaðstæki fyrir einstakling í atvinnuleit. Það er notað til að gera grein fyrir ástæðu umsóknar og koma til skila upplýsingum sem ekki koma fram í ferilskrá. Einnig er hægt að nýta það til að útskýra ákveðin atriði ferilskrár betur. Það fjallar þó ekki eingöngu um ágæti umsækjandans heldur er meginmarkmið þess að sannfæra ráðningaraðila hvað umsækjandi getur gert fyrir hann.
Gott er að huga að því að í sumum tilfellum byrjar atvinnurekandi á að lesa kynningarbréfið. Það þarf því að vanda sig við gerð þess líkt og við gerð ferilskráar.
Efst í kynningarbréfinu eru upplýsingar um nafn, heimilisfang, síma og netfang sendanda. Því næst staður og dagsetning og loks heiti og heimilisfang fyrirtækisins sem umsóknin sendist til. Ef vitað er um nafn þess sem hefur með mannaráðningar að gera þá er nafn hans sett hjá nafni fyrirtækisins.
Í upphafi skal tilgreina nákvæmlega hvaða starf eða starfsvettvang verið er að sækja um. Ef um er að ræða starf sem hefur verið auglýst skal gera grein fyrir því hvar upplýsingar um starfið fengust og hvers vegna það vekur áhuga. Í framhaldi af því er mikilvægt að rökstyðja í stuttu og hnitmiðuðu máli hvers vegna umsækjandi telur sig hæfan til að gegna starfinu og með hvaða hætti hann telur að fyrirtækið eigi eftir að hafa gagn af störfum hans. Það er kostur ef umsækjandi getur nefnt kunnáttu eða reynslu sem gerir hann sérstaklega vel hæfan fyrir viðkomandi starf.
Að lokum er svo ágætt að nefna áhuga umsækjandans á að fá viðtal til að geta gert betur grein fyrir umsókninni. Bréfinu lýkur með stuttri vinsamlegri kveðju og undirskrift. Fyrir neðan undirskriftina eru talin upp þau fylgiskjöl sem send eru með þ.e. ferilskrá, námsgögn o.fl., eftir því sem við á hverju sinni.
- Gott er að eiga vandað kynningarbréf sem hægt er að aðlaga eftir hverju starfi og fyrirtæki.
- Mikilvægt er að allar upplýsingar séu réttar og engar innsláttar- eða stafsetningarvillur. Það er nefnilega erfitt að breyta fyrstu hughrifum sem umsóknin vekur!
- Gott er að vista bréfið með nafni umsækjandans eða kennitölu, helst sem pdf skjal.
- Áherslan í bréfinu á að vera á starfið sem sótt er um, ekki það sem umsækjandi hefur gert í lífinu. Gæta þess að nota ekki of mikið „ég“.
- Kynningarbréf er yfirleitt hálf til ein blaðsíða.
- Nauðsynlegt er að draga fram þau atriði sem mæla með umsækjandanum í starfið. Það þarf að svara hvernig hann uppfyllir þær kröfur sem starfið gerir.
- Mikilvægt er að enda bréfið á kurteislegan hátt og hafa það undirritað
Vinnumálastofnun hefur búið til dæmi um uppsetningu kynningarbréfi og sniðmát af kynningarbréfi.
Viðtalið er tækifæri til að láta í té gagnlegar upplýsingar um atvinnuleitandann til spyrilsins, en ekki próf þar sem atvinnuleitandinn er í vörn við að svara spurningum. Umsækjandinn hefur margvíslega gagnlega færni, ákjósanleg starfsviðhorf og fjölbreytta, persónulega reynslu sem ekki er hægt að segja frá í smáatriðum í ferilskrá. Viðtalið gefur tækifæri til að minnast á og leggja áherslu á þessa ákjósanlegu þætti.
Markmið spyrlanna í viðtalinu eru að afla upplýsinga um hæfileika umsækjanda og meta hversu vel hann hentar í viðkomandi fyrirtæki og þá stöðu sem verið er að ráða í. Því er mikilvægt að slá á létta strengi í viðtalinu þannig að útkoman verði skemmtilegt spjall þar sem spyrillinn fær að kynnast innri manni umsækjanda.
Í lok viðtals er gott að sýna þakklæti fyrir móttökurnar og láta í ljós áhuga á starfinu. Ef möguleiki er fyrir hendi, þá er dagur ákveðinn til að hafa samband aftur.- Æfðu þig á spurningunum
- Ekki mæta of seint – alls ekki of snemma heldur
- Snyrtilegt útlit – það fyrsta sem tekið er eftir
- Heilsa öllum með handabandi
- Augnsamband
- Brosa – hafa gaman
Sá sem spyr þarf að finna út á stuttum tíma hvernig persóna þú ert og hvernig framtíðar starfsmaður þú munt verða. Þar af leiðandi eru spurningar spyrla oft þær sömu frá einu viðtali til annars. Gefðu þér tíma að svara hverri spurningu. Það sýnir íhugun og yfirvegun. Umræða um félagslíf og tómstundir er jákvæð og á alls ekki að forðast. Þú verður persónulegri í huga þeirra í stað þess að vera samansafn upplýsinga um starfskunnáttu. Það hefur áhrif að vera jákvæður á allan máta, skýr í svörum og alls ekki forðast augnsamband.
Dæmi um spurningar frá atvinnurekendum
- Hvers vegna sækir þú um þetta starf?
- Hvað hefur þú fram að færa?
- Hvers vegna hættir þú í síðasta starfi? Hverjir voru kostir og gallar starfsins?
- Hvernig líkar þér að vinna undir álagi?
- Hvers vegna valdir þú þessa starfsgrein?
- Hvað kallar þú gott starfsumhverfi?
- Hvernig vinnur þú úr ágreiningi á vinnustað?
- Af hverju á ég að ráða þig?
- Segðu frá hugmynd sem þú hefur fengið og hefur verið hrint í framkvæmd á þínum vinnustað.
- Hvernig telur þú að samstarfsfólk/yfirmaður komi til með að lýsa þér?
- Hverjir eru helstu styrkleikar/veikleikar þínir?
- Hver eru langtímamarkmið þín varðandi þetta starf?
Það er mikilvægt að sýna jákvæðni og áhuga á umræddu starfi og því gott að vera tilbúinn með spurningar varðandi starfið. Það gæti reynst vel að æfa sig á spurningunum og jafnvel skrifa spurningar og svör á blað (þó ekki til að taka með í viðtalið).
Dæmi um spurningar fyrir umsækjanda
- Hvers vegna er þetta starf laust?
- Hvað felst í starfinu?
- Er til starfslýsing?
- Hverjir eru möguleikar á endurmenntun í starfi?
- Hver er lykillinn að árangri í þessu starfi?
- Hvernig er árangurinn metinn?
- Hversu langan tíma fæ ég að sanna mig í starfi?
Það sem getur virkað neikvætt
- Skortur á mannasiðum.
- Lágt sjálfsmat.
- Hroki.
- Áhugaleysi.
- Vanþekking á fyrirtæki eða starfsemi.
- Kærulaust útlit: snyrtimennska bágborin og fatnaður hirðulaus.
- Skortur á leiðtogahæfileikum.
- Óraunhæfar kröfur. Ofuráhersla á launaþáttinn og eiginhagsmuna viðhorf. Ekki litið til tækifæra í starfi og mögulegrar starfsþróunar.
Í fyrsta viðtali er vænlegra að bíða með spurningar um frí, laun og fríðindi einhverskonar. Slík umræða fer fram í næsta viðtali sem oft kallast launaviðtal
Ríkið
Meginreglan er að auglýsa skuli öll laus störf, bæði embætti og önnur opinber störf, sbr. 7. gr. starfsmannalaga. Auglýsingaskyldan tryggir öllum tækifæri til að sækja um laus störf hjá ríkinu og stuðlar að því að ríkið eigi kost á færum og hæfum starfsmönnum.
Hið opinbera uppfyllir lagaskyldu um auglýsingu lausra starfa með auglýsingu starfa á Starfatorgi þar sem er að finna upplýsingar um laus störf hjá ríkinu og yfirliti lausra starfa hjá hinu opinbera sem birt er í atvinnuauglýsingum dagblaða.
Laust starf
Skylda til að auglýsa störf tekur ekki einungis til „nýrra starfa“. Auglýsingaskylda 2. mgr. 7. gr. starfsmannalaga tekur til „lausra starfa“ .
Umboðsmaður Alþingis hefur litið svo á að afstaða til þess hvort tiltekið starf skuli talið laust í þessari merkingu sé að ýmsu leyti komið undir aðstæðum og afstöðu forstöðumanns. Forstöðumaður eigi á grundvelli stjórnunarheimilda sinna að nokkru leyti mat um hvort tiltekin viðfangsefni skyldu skilgreind sem laust starf eða hvort þau yrðu felld undir starfssvið þeirra starfsmanna sem þegar starfi hjá stofnuninni. Þá væri ekki sjálfgefið að þegar nýtt starf yrði til að það væri auglýst laust til umsóknar heldur kynni að vera unnt að haga breytingum með þeim hætti að starfsmaður sem fyrir væri hjá stofnuninni tæki yfir þau verkefni sem féllu undir hið nýja starf og annað starf en stofnaðist væri auglýst.
Sjá um það efni niðurstöðu umboðsmanns Alþingis í máli nr. 12124/2023.
Ef stjórnvald leitar hins vegar til utanaðkomandi einstaklings til þess að gegna starfi hjá opinberri stofnun sem þegar er til staðar er eðlilegast að líta svo á að viðkomandi starf sé „laust“ í merkingu 2. mgr. 7. gr. starfsmannalaga sem beri að auglýsa af þeim sökum nema þær undantekningar sem taldar eru upp í reglum um auglýsingar lausra starfa eigi við eða sérstök lagaheimild standi til annars, sbr. m.a. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5677/2009.
Gefnar hafa verið út reglur um auglýsingar lausra starfa nr. 1000/2019 er gilda um opinbera starfsmenn sem falla undir skilgreiningu 1. mg. 1. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í þeim reglum er m.a. lýst þeim atriðum sem skuli koma fram í auglýsingu á lausu starfi. Tilgreina skal tilgreina starfsheiti, heiti stofnunar og staðsetningu starfs eða hvort það sé án staðsetningar. Þá skal skal ávallt tilgreina eftirfarandi:
- Hvaða starf og starfssvið er um að ræða. Skal lýsing starfs vera nægjanlega greinargóð til þess að mögulegir umsækjendur geti gert sér glögga grein fyrir því í hverju starfið felst.
- Starfshlutfall.
- Stjórnunarlega stöðu starfsins innan stofnunar/ríkisfyrirtækis
- Menntunar- og hæfniskröfur.
- Aðrar almennar og sértækar kröfur sem gerðar eru til starfsmanns.
- Starfskjör.
- Hvenær æskilegt er að starfsmaður hefji störf.
- Hvar leita skuli frekari upplýsinga
- Lengd umsóknarfrests.
- Hvert umsókn á að berast og á hvaða formi.
Frávik frá auglýsingaskyldu
Ekki er skylt að auglýsa öll opinber störf, sbr. 2. gr. reglna um auglýsingar lausra starfa. Þar er tekið fram að ekki sé skylt að auglýsa störf í eftirfarandi tilvikum:
- Störf sem aðeins eiga að standa í tvo mánuði eða skemur.
- Störf sem eru tímabundin vegna sérstakra aðstæðna, svo sem vegna orlofs, veikinda, fæðingar- og foreldraorlofs, námsleyfis, leyfis til starfa á vegum alþjóðastofnana o.þ.u.l., enda sé ráðningunni ekki ætlað að standa lengur en 12 mánuði samfellt.
- Störf sem auglýst hafa verið innan síðustu sex mánaða og í þeirri auglýsingu hafi þess verið getið að umsóknin geti gilt í sex mánuði frá birtingu.
- Störf vegna tímabundinna vinnumarkaðsúrræða á vegum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins.
- Hlutastörf fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu sem teljast til vinnumarkaðsúrræða.
Undanþága frá auglýsinguskylduu vegna afleysingastarfa gildir einungis ef sannarlega er um að ræða afleysingu af einni af þeim ástæðum sem tilgreindar eru í 2. gr. framangreindra reglna, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 10592/2020. Liggja þarf fyrir að tiltekinn starfsmaður, sem áður hefði verið ráðinn í starfið, tæki við því á ný eftir fyrirsjáanlega og leyfilega fjarveru. Umboðsmaður benti á að með vísan til þess að hér væri um undantekningu frá almennri reglu um auglýsingaskyldu að ræða, yrði að leggja til grundvallar að ákvæðið ætti eingöngu við um þær aðstæður þegar starfsmaður sem gegndi starfinu væri forfallaður frá vinnu og nauðsynlegt reyndist að leysa hann af. Kvað umboðsmaður að þegar starf yrði laust vegna þess að starfsmaður hætti væri aftur á móti ekki um það að ræða að verið væri að leysa viðkomandi starfsmann af.
Tímabundnar ráðningar
Heimild í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. 2. mgr. 41. gr. til að ráða starfsmenn tímabundinni ráðningu til tveggja ára, er án þýðingar fyrir skyldu stjórnvalds til að auglýsa laust starf til umsóknar, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 11835/2022.
Flutningur í starfi
Á skyldu ríkisstofnunar til að auglýsa starf getur reynt í þeim tilvikum þegar forstöðumaður ákveður að færa starfsmann til í starfi, eftir atvikum úr almennri stöðu innan stofnunar yfir í yfirmannstöðu. Í þeim málum reynir á hvað felst í orðunum „laust starf“ í skilningi 7. gr. starfsmannalaga.
Umboðsmaður Alþingis hefur fjallað um þetta álitamál, m.a. í málum nr. 3684/2003 og 3714/2003. Kvartað var yfir því að við stofnun sérstaks starfs innkaupastjóra við tækni- og innkaupadeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri og ráðningu tiltekins einstaklings C í það starf hefði verið fram hjá kvartanda A. Taldi hann sig í raun hafa gegnt starfi innkaupastjóra á sjúkrahúsinu „án viðurkenningar“ í 28 ár. Annar aðili B kvartaði sömuleiðis yfir því að starf innkaupastjóra hafði ekki verið auglýst áður en umræddur einstaklingur var ráðinn í það en hún hefði viljað fá tækifæri til að sækja um það.
Umboðsmaður tók til athugunar hvort sú breyting sem gerð var á starfi A þegar starf innkaupastjóra var stofnað hefði verið í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. Þá beindist athugunin einnig að því hvort skylt hafi verið að auglýsa starf innkaupastjóra laust til umsóknar áður en C var ráðinn til að gegna því.
Umboðsmaður taldi ljóst að við stofnun starfs innkaupastjóra hefðu orðið verulegar breytingar á starfssviði A. Umboðsmaður benti á að skipulagsbreytingar leiddu oft til þess að óhjákvæmilegt væri að breyta störfum starfsmanna stofnunar. Hefðu stjórnvöld allrúmar heimildir til þess samkvæmt 19. gr. laga nr. 70/1996. Þær breytingar mættu þó ekki ganga lengra eða vera meira íþyngjandi í garð þeirra starfsmanna sem í hlut ættu en nauðsyn bæri til, sbr. almenna meginreglu um meðalhóf í stjórnsýslu. Umboðsmaður taldi ekki tilefni til að álíta að framangreindar breytingar sem gerðar voru á störfum og verksviði A hefðu stangast á við grundvallarreglur stjórnsýsluréttar eða vandaða stjórnsýsluhætti.
Umboðsmaður taldi að þegar til starfs innkaupastjóra við sjúkrahúsið var stofnað hafi starfið verið laust í merkingu 1. mgr. 2. gr. reglna nr. 464/1996, um auglýsingar á lausum störfum, enda yrði ekki séð að nokkur hafi átt lagalegt tilkall til þess að gegna því. Skylt hafi verið að auglýsa starf innkaupastjóra laust til umsóknar samkvæmt þeim reglum. Því hafi verið óheimilt að ráða C í starfið án undangenginnar auglýsingar þar sem öllum þeim sem áhuga höfðu á að sækja um það var gefinn kostur á að leggja fram umsókn.
Breyting á starfi
Í umfjöllun um auglýsingu opinberra starfa getur einnig þurft að horfa til 19. gr. starfsmannalaga en þar kemur fram að starfsmanni sé skylt að hlíta breytingum á störfum sínum og verksviði frá því er hann tók við starfi. Forstöðumenn meta það stundum svo að ekki sé um annað starf að ræða heldur einungis breytingu á verkefnum. Breytingin falli því ekki undir reglur um auglýsingar opinberra starfa. Meta verður í hverju tilviki fyrir sig hvort ákvörðun forstöðumanns sé á rökum reist. Stéttarfélög háskólamanna veita félagsmönnum sínum aðstoð við mat á þessu atriði.
Reykjavíkurborg
Stofnunum og fyrirtækjum Reykjavíkurborgar er skylt að auglýsa öll laus störf laus til umsóknar á opinberum vettvangi, nema í nánar tilgreindum undantekningartilvikum, þ.m.t. vegna afleysingastarfa vegna fæðingarorlofs þar sem ráðning skal standa 12 mánuði eða skemur, sbr. grein 9.1 í kjarasamningi aðildarfélaga BHM og Reykjavíkurborgar. Ef borgaryfirvöld líta svo á að ráða skuli í stöðu með uppfærslu innan starfsgreinarinnar eða frá hliðstæðum starfsgreinum skal staðan auglýst á þeim vettvangi einum.
Í starfsauglýsingu skal að lágmarki tilgreina:
- Starfsheiti, starfstegund eða eftir atvikum stutta starfslýsingu.
- Starfshlutfall ef ekki er um fullt starf að ræða.
- Kröfur sem gerðar eru til starfsmanns.
- Starfskjör í boði s.s. með orðunum “eftir hlutaðeigandi kjarasamningi opinberra starfsmanna”.
- Hver veitir nánari upplýsingar um starfið.
- Hvert umsókn á að berast.
- Hvenær starfsmaður skuli hefja starf.
- Hvort umsókn eigi að vera á sérstöku eyðublaði og ef svo er hvar sé hægt að fá það.
- Kröfur um gögn - ef einhver eru - sem eiga að fylgja umsókn.
- Umsóknarfrest.
Sveitarfélög
Sveitarfélög auglýsa að jafnaði laus störf á opinberum vettvangi, sbr. grein 11.12 í kjarasamningi aðildarfélaga BHM við sveitarfélögin.
Fram kemur í skýringartexta með þessu ákvæði að skipulagsbreytingar leiði ekki sjálfkrafa til þess að segja þurfi fólki upp störfum og auglýsa störf laus til umsóknar skv. breyttu skipulagi. Skoða þarf hvort og þá hversu miklar breytingar verða á starfi, hæfisskilyrðum og aðstæðum að öðru leyti. Því eiga reglur um auglýsingaskyldu ekki alltaf við þegar um skipulagsbreytingar er að ræða.
Sveitarfélög er bundin af ákvæðum stjórnsýslulaga, þ.m.t. að því varðar ráðningarmál. Einstök sveitarfélög hafa mörg hver sett sér skýrari reglur hvað varðar auglýsingar starfa.
Í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 11998/2023 er fjallað um annmarka á meðferð ráðningarmáls hjá sveitarfélagi. Að áliti umboðsmanns skorti á að við meðferð málsins í heild og lokaákvörðun þess hefði farið fram heildstæður samanburður á hæfni umsækjenda þannig að fullnægt væri kröfum rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Þrátt fyrir þessa annmarka taldi umboðsmaður ólíklegt að þeir leiddu til ógildingar á ráðningunni, einkum vegna hagsmuna þess sem var ráðinn.
Auglýsa skal öll laus kennslu- og stjórnunarstörf í leik-, grunn- og framhaldsskólum, sbr. 13. gr. laga um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.
Almennur vinnumarkaður
Á atvinnurekendum á hinum almenna markaði hvílir ekki skylda samkvæmt lögum eða kjarasamningum að auglýsa lausar stöður eða störf.
Bann við mismunun í auglýsingu um starf
Opinberum stofnunum sem og fyrirtækjum á almennum markaði er óheimilt að auglýsa eða birta auglýsingu um laust starf þar sem gefið er í skyn að fremur sé óskað eftir starfskrafti af einu kyni en öðru.
Þessi regla á þó ekki við ef tilgangur auglýsandans er að stuðla að jafnari kynjaskiptingu milli kvenna og karla innan starfsgreinarinnar og skal það þá koma fram í auglýsingunni. Sama á við ef gild rök mæla með því að einungis sé auglýst eftir starfskrafti af tilteknu kyni, sbr. 3. mgr. 19. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Sams konar ákvæði er í 4. mgr. 6. gr. starfsmannalaga.
Þá er er mismunun vegna kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáninga í auglýsingu um laust starf óheimil sem og birting slíkrar auglýsingar, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga um jafna meðferð á vinnumarkaði. Áfmörkuð frávik eru þó heimiluð s.s. vegna starfstengdra eiginleika eða aldurs.