Öryggistrúnaðarmenn
Árangursríkt vinnuverndarstarf er samstarfsverkefni atvinnurekenda og starfsfólks.
Í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum eru settar kröfur um miðlun upplýsinga og samskipti stjórnenda og starfsfólks í vinnuverndarmálum.
Fyrirkomulag þessara samskipta ræðst af fjölda starfsmanna á vinnustaðnum, sbr. II. kafla laganna og II. kafla reglugerðar um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs.
Stærð vinnustaða og öryggisráðstafanir
- Vinnustaðir með færri en tíu starfsmenn - starfsfólk sé upplýst
Atvinnurekandi skal stuðla að góðum aðbúnaði og öryggi á vinnustað í nánu samstarfi við starfsfólk sitt. - Vinnustaðir með 10 til 49 starfsmenn - öryggistrúnarmaður
Starfsfólk kýs einn fulltrúa úr sínum hópi sem öryggistrúnaðarmann, en atvinnurekandi tilnefnir einn fulltrúa af sinni hálfu sem öryggisvörð, nema hann taki það hlutverk að sér sjálfur. - Vinnustaðir með 50 eða fleiri starfsmenn - öryggisnefnd
Á slíkum vinnustöðum skal stofna öryggisnefnd. Starfsmenn kjósa tvo fulltrúa úr sínum hópi og atvinnurekandi tilnefnir að lágmarki tvo öryggisverði fyrir hönd fyrirtækisins.
Öryggisnefnd
Öryggisnefnd ber ábyrgð á skipulagningu aðgerða er varða aðbúnað, hollustuhætti og öryggi innan fyrirtækisins. Hún annast fræðslu starfsmanna og hefur eftirlit með því að allar ráðstafanir, sem varða öryggi og hollustuhætti, komi að tilætluðum notum.
Öryggisverðir og öryggistrúnaðarmenn í öryggisnefndum taka þátt í gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustað, og fylgjast með því hvernig henni er framfylgt. Í því felst þátttaka í gerð áhættumats og áætlunar um heilsuvernd þar sem meðal annars kemur fram áætlun um forvarnir, sbr. V. kafla reglugerðar um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs.
Öryggistrúnaðarmenn og öryggisverðir
Þar sem öryggisnefnd er ekki til staðar (á vinnustað með færri en 50 starfsmenn) taka öryggistrúnaðarmaður og öryggisvörður, eða félagslegur trúnaðarmaður starfsmanna, þátt í gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustaðnum og fylgjast með hvernig henni er framfylgt.
Öryggisverðir og öryggistrúnaðarmenn skulu fara í eftirlitsferðir um vinnustaðinn svo oft sem þurfa þykir og hafa eftirlit með því að:
- Vélar og tæknibúnaður, hættuleg efni og starfsaðferðir stofni ekki lífi og heilsu starfsmanna í hættu.
- Ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi viðgangist ekki á vinnustaðnum.
- Starfsmönnum sé kynnt sú áhætta sem fylgir störfum þeirra og vinnuaðstæðum.
- Skráningu vinnuslysa, óhappa og atvinnusjúkdóma sé sinnt.
- Starfsmenn fái nauðsynlega fræðslu á sviði vinnuverndar.
Öryggistrúnaðarmönnum og öryggisvörðum skal skýrt frá öllum vinnuslysum, óhöppum og atvinnusjúkdómum sem eiga sér stað innan fyrirtækisins til að auðvelda þeim að sinna skyldum sínum.
Jafnframt skulu þeim kynntar niðurstöður mælinga og rannsókna á hollustuháttum og öryggi. Auk þess skal upplýsa þá um bilun eða aðstæður sem kunna að hafa áhrif á aðbúnað, öryggi og hollustuhætti á vinnustað. Þá skal kynna þeim ábendingar og fyrirmæli Vinnueftirlits ríkisins sem varða fyrirtækið.
Öryggistrúnaðarmenn gegna einnig mikilvægu hlutverki við meðferð mála sem varða ábendingar eða kvartanir um einelti og kynferðislega áreitni á vinnustað (EKKO), sbr. 7. og 9. gr. reglugerðar um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.
Kosning öryggistrúnaðarmanns
Félagslegir trúnaðarmenn starfsmanna eða trúnaðarmenn viðkomandi stéttarfélaga bera ábyrgð á undirbúningi og framkvæmd kosningar öryggistrúnaðarmanna.
Kosningin skal fara fram með skriflegri atkvæðagreiðslu, sem stendur í að minnsta kosti einn vinnudag, eða á starfsmannafundi sem boðaður hefur verið með að lágmarki tveggja sólarhringa fyrirvara. Tryggja skal að öllum starfsmönnum, sem kosningarétt hafa, sé gefinn kostur á þátttöku.
Öryggistrúnaðarmenn skulu að jafnaði kosnir til tveggja ára í senn.
Atvinnurekandi skal tilkynna Vinnueftirliti ríkisins um þá aðila sem hafa verið tilnefndir sem öryggisverðir og kosnir sem öryggistrúnaðarmenn. Jafnframt skulu þeir sem annast framkvæmd kosninganna tilkynna viðkomandi stéttarfélögum um sömu aðila.
Tími og námskeið
Forstöðumanni stofnunar eða fyrirtækis ber að tryggja að öryggistrúnaðarmenn og öryggisverðir fái nægilegan tíma til að sinna störfum sínum með fullnægjandi hætti.
Árangur í vinnuvernd kallar einnig á þjálfun og fræðslu sem tekur mið af vinnuumhverfi og aðstæðum starfsfólks. Fulltrúar starfsmanna eiga rétt á viðeigandi fræðslu og skulu eiga þess kost að sækja námskeið á kostnað vinnuveitanda, sem gerir þeim kleift að afla sér grunnþekkingar á sviði vinnuverndar.
VInnueftirlitið býður upp á námskeið fyrir öryggistrúnaðarmenn og öryggisverði.
Réttarvernd
Öryggistrúnaðarmenn njóta sömu réttarverndar og félagslega kjörnir trúnaðarmenn, í samræmi við 11. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur.
Gögn þessi koma frá BHM, seinast uppfærð 27. janúar 2025.